Unnustinn horfinn líka í dularfullu mannshvarfsmáli

18.09.2021 - 17:05
Mynd með færslu
 Mynd: North Port Police - RÚV
Lögreglan í North Port í Flórida leitar nú logandi ljósi að Brian Laundrie, unnusta hinnar 22 ára gömlu Gabrielle Petito sem hvarf sporlaust eftir að hún og Laundrie fóru í ferðalag um Bandaríkin. Fjölskylda Petito segir að unnustinn sé ekki horfinn heldur í felum.

Málið hefur vakið mikla athygli í Bandaríkjunum enda nýtur Petito talsverðra vinsælda á Instagram þar sem hún hefur verið dugleg að birta myndir af sér og parinu.  

Laundrie og Petito lögðu af stað í ferðalag um Bandaríkin í júlí á hvítum Ford Transit og birtu myndskeið á YouTube.  Í byrjun september kom Laundrie síðan einn heim. 

Fram kemur á vef BBC að fjölskylda Petito hafi strax tilkynnt lögreglu um að dóttir þeirra væri horfin og í framhaldinu hófst umfangsmikil lögreglurannsókn. Rannsóknin leiddi meðal annars í ljós að rúmlega hálfum mánuði áður hafði lögreglan í Utah haft afskipti af parinu vegna gruns um heimilisofbeldi.  Þau voru aðskilin eina nótt en engin kæra var lögð fram.  

Í frétt Guardian kemur fram að lögreglan hafi í dag staðið fyrir umfangsmikilli en árangurslausri leit að Laundrie. Hann er ekki grunaður um neinn glæp en lögreglan telur nauðsynlegt að ná tali af honum. 

Yfirvöld hafa reyndar lengi reynt að ná tali af Laundrie og fjölskyldu hans í tengslum við hvarf Petito en þau hafa ekki reynst samstarfsfús. Lögreglustjórinn í North Port, sem fer með rannsókn málsins, sagði á Twitter í vikunni að tvær manneskjur hefðu farið í ferðalag „en aðeins önnur þeirra sneri aftur heim.“

Systir Laundrie sagði við fjölmiðla að hún óskaði þess að Petito fyndist sem allra fyrst og vonaði að málið væri byggt á misskilningi. Í bréfi sem fjölskylda Petito sendi fjölskyldu Laundrie og var birt opinberlega sögðust þau ekki skilja hvers vegna Laundrie-fjölskyldan vildi ekki hjálpa þeim. „Við teljum að þið hafið upplýsingar um hvar Gabby er niðurkomin. Við biðjum ykkur um aðstoð.“

Hópur fólks hefur safnast saman við heimili Laundrie-fjölskyldunnar og haldið á lofti spjöldum þar sem spurt er: „Hvar er Gabby?“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV