„Þorpsfíflið virðist hafa haft rétt fyrir sér“

Mynd: Ástþór Magnússon / Aðsend

„Þorpsfíflið virðist hafa haft rétt fyrir sér“

18.09.2021 - 09:21

Höfundar

Ástþór Magnússon fyrrum forsetaframbjóðandi og stofnandi Friðar 2000 segist lengi hafa talað fyrir daufum eyrum þegar hann barðist fyrir friðarmálum í forsetaframboði, og að hann hafi verið hafður jafnvel að háði og spotti. Nú segir hann þó ljóst að hann hafi haft ýmislegt fyrir sér í baráttu sinni.

Ástþór Magnússon fyrrum forsetaframbjóðandi, viðskiptamaður og stofnandi Friðar 2000 þekkja flestir núlifandi Íslendingar, þó hann hafi látið lítið fyrir sér fara síðustu ár. Hann er búsettur á Spáni og Portúgal á víxl þar sem hann aðstoðar fólk við kaup á fasteignum, í gegnum fyrirtækið Valhalla paradise. Þá starfar hann einnig við bílainnflutning.

Hann hefur mikla reynslu af viðskiptabransanum. „Ég hjálpaði við að starta flugfélagi í Portúgal fyrir tuttugu og fimm árum og hef verið í viðskiptum allt mitt líf,“ segir hann um viðskiptaferilinn.

Margir muna Ástþór sem forsetaframbjóðandann. Hann bauð sig fram til embættisins árið 1996 og kynnti hann þá hugmyndir sínar um frið, með bókinni Virkjum Bessastaði. Árið 2000 var framboð hans dæmt ógilt þar sem nægilegan fjölda meðmælenda vantaði. 2004 bauð hann sig aftur fram og ætlaði að endurtaka leikinn 2012, en framboð hans var einnig dæmt ógilt þar sem ekki fékkst lögboðið vottorð yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi.  „Þessi árátta mín varðandi forsetaframboðið kom til þannig að ég fór að kynna mér friðarmál í sambandi við kjarnorku,“ segir hann.

Hann kveðst hafa fengið ákveðna hugljómun þegar hann las skýrslu um að vísindamenn vöruðu við því að mannkyni stæði mikil hætta af kjarnorkuvopnum. „Það er meðal annars vegna þess að einstakir leiðtogar, eins og í Bandaríkjunum, hafa alræðisvald yfir kjarnorkuvopnum.“

Honum þótti þó sem hann talaði fyrir daufum eyrum á sínum tíma, en segir nú ljóst að hann hafi haft ýmislegt fyrir sér.  „Það er að koma út bók í Bandaríkjunum á mánudaginn og þar er yfirmaður bandaríkjahers að lýsa yfir hvað hann var hræddur um að fyrrverandi forseti á síðustu embættisdögum sínum myndi grípa til kjarnorkuvopna gegn Kína. Hann taldi hættuna svo mikla að hann hafði samband við kínversku yfirherstjórnina til að láta vita að það væri allt undir kontról, og þau myndu stöðva hann ef slíkt myndi gerast.“

Ástþór segist sjálfur hafa talið best væri að kjarnorkuvopnin væru sett undir stofnun Sameinuðu þjóðanna. „Í tengslum við það hef ég talað fyrir því að forseti Íslands beiti sér fyrir því að höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna flytji til Íslands,“ segir hann og kveðst hafa hingað til verið sannspár um vissa hluti. „Ég spáði því í forsetaframboðinu sem ég var í að ef eitthvað gerðist á alheimsvísu gæti ferðamannaiðnaður Íslendinga hrunið á einni nóttu. Það er nákvæmlega það sem gerðist. Það var út af þessari veiru en hefði alveg getað gerst út af hernaði.“

Honum fannst hann mæta þöggun og að reynt hefði verið að draga úr trúverðugleika hans með ýmsum hætti. Hann bætir við að viss manneskja, sem nú sé í framboði til þings, hafi kallað hann þorpsfífl í leiðara í Fréttablaðinu. „En þorpsfíflið virðist hafa rétt fyrir sér því ef yfirmaður Bandaríkjahers er að benda á þessa hættu sem ég var að benda á fyrir mörgum árum, þá hlýt ég að hafa eitthvað til míns máls.“

Ástþór biðlar því til kjósenda að hugsa sig vel um áður en gengið sé til kosninga eftir viku. Sjálfur kveðst hann ekki sáttur við Guðna Th. Jóhannesson núverandi forseta vegna þess að hann sé ekki friðarsinni. „Hann vildi ekki beita sér gegn þessum hernaði, ekki gegn veru okkar í Nató og ég tel að við séum að setja Ísland sem skotmark í framtíðinni ef við tökum of mikinn þátt í þessu,“ segir hann. „Við eigum frekar að nota okkar áhrif, eins og forsetaembættið sem er þverpólitískt afl, til að tala fyrir nýrri hugmyndafræði í þessum friðarmálum.“

Að reka samtökin Friður 2000 segir Ástþór ekki alltaf hafa verið auðvelt. „Ekki eftir að lögreglan ruddist inn og tók allar tölvur og reyndi að loka okkur niður. Það hefur gengið á ýmsu til að reyna að þagga niður í boðskapnum,“ segir hann og bætir við að svo langt hafi verið gengið að reynt hafi verið að stinga honum í steininn.  „Það átti að reyna að koma mér í fangelsi en þeim tókst það ekki. En margir Íslendingar urðu hræddir við að starfa með samtökunum eftir þetta. Það voru teknar allar félagaskrár og allt af lögreglunni.“

Hann segir að samtökin hafi ekki unnið sér neitt til saka. „Bara að benda á staðreyndir að við þurfum að passa okkur í þessum málum og ekki vera að styðja til dæmis eins og Íraksstríðið.“

Ástþór á ekki von á að gefa kost á sér til forseta aftur í bráð. „Mér sýnist þjóðin vera sátt við svona forseta sem styður hernað og stimplar alla pappíra sem koma frá ríkisvaldinu þegjandi og hljóðalaust. Ég veit ekki hvort það þýði að koma og gera eitthvað,“ segir hann að lokum.

Rætt var við Ástþór Magnússon í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.