Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Hvetjandi, örvandi og bitlaust raunveruleikasjónvarp

Mynd: Stöð 2 / Stöð 2

Hvetjandi, örvandi og bitlaust raunveruleikasjónvarp

18.09.2021 - 11:00

Höfundar

Sjónvarpsrýnir Lestarinnar hélt niðri í sér andanum þegar áhorf nýrra íslenskra raunveruleikaþátta hófst. Katrín Guðmundsdóttir tók að sér að horfa á þættina #Samstarf, Fyrsta blikið og Allskonar kynlíf. Sumir þeirra komu skemmtilega á óvart en aðrir virkuðu bitlausir og þvingaðir.

Katrín Guðmundsdóttir skrifar:

Myrkur, kuldi, rútína og nýir og spennandi sjónvarpsþættir. Uppáhaldsárstíðin mín, haustið, er gengin í garð og ég ærist yfir úrvalinu. Stöð 2 er sérstaklega öflug þessa dagana en ég rak einmitt augun í þrjár nýjar íslenskar þáttaraðir þar í síðustu viku; Fyrsta blikið, #Samstarf og Allskonar kynlíf. Allt léttir og hressandi mannslífsþættir með skvettu af raunveruleikasjónvarpi, gamanleik og fræðslu. Ég horfði á þá alla og myndaði mér gagnrýna skoðun, byggða á hugmyndum mínum um markmið þeirra, sem ég veit samt auðvitað ekkert hver eru. En ég veit svo sannarlega hverjum þeirra ég mun halda áfram að fylgjast með og hverjum ekki.

Mjög fallegt og hvetjandi að horfa upp á fólk opna sig

Fyrst á dagskrá var Fyrsta blikið, stefnumótaþættir að breskri fyrirmynd, First Dates, sem Stöð 2 hefur einmitt sýnt undanfarin ár. Þar fylgjast áhorfendur með blindum stefnumótum fólks sem þáttastjórnendur hafa parað saman út frá sameiginlegum gildum og áhugamálum.

Ég verð að viðurkenna að ég hélt niðri í mér andanum þegar áhorfið hófst enda er orðspor íslenskra stefnumótaþátta svolítið sóðalegt. Ég læt mér nægja að nefna Djúpu laugina, Ástarfleyið og Íslenska piparsveininn. Það kom mér því ánægjulega á óvart hversu vandaðir og einlægir þættirnir eru í raun og veru. Eins og þeim sé raunverulega ætlað að hjálpa fólki að finna ástina. Öll umgjörð Fyrsta bliksins er fyrsta flokks. Við byrjum á opinskáu viðtali þáttastýrunnar, Ásu Ninnu, okkar eigin íslensku Carrie Bradshaw, við þátttakendurna. Því næst gægjumst við heim til þeirra á meðan þau hafa sig til fyrir stefnumótið. Vettvangur stefnumótsins, veitingastaðurinn Monkeys, er jafnframt mjög huggulegur, sem og vertinn Svenni sem tekur á móti fólkinu og stappar í það stálinu. Staðurinn er fullur af statistum sem standa sig prýðilega, jafnvel þótt sumir ráði ekki við sig og laumist til að kíkja á pörin, sem er pínu fyndið en líka mjög skiljanlegt. Þáttastýran fylgist svo með öllu baka til og kommentar krúttlega á framvindu stefnumótanna, auk þess að ramma frásögnina alla inn með afgerandi sögumannsrödd. Ása Ninna hlúir að þátttakendunum eins og ástarguðinn Amor og tekst á einhvern undraverðan hátt að fá þá til að berskjalda sig fyrir þjóðinni allri. Það er mjög fallegt og raunar mjög hvetjandi að horfa upp á fólk opna sig með þessum hætti og á sama tíma aðdáunarvert að sjá þáttastýruna draga það fram á svona fyrirhafnarlausan hátt.

Strangheiðarlegar glamúrpíur

Næst á dagskrá var #Samstarf, raunveruleikaþættir sem fylgjast með íslenskum samfélagsmiðlastjörnum reyna fyrir sér sem starfsmenn á almennum vinnumarkaði.

Þáttaröðin sækir líka innblástur erlendis frá, í hina bandarísku The Simple Life með Paris Hilton og Nicole Richie í aðalhlutverkum, en minna mig samt líka dálítið á Atvinnumann Þorsteins Guðmundssonar frá árinu 2003. #Samstarfið heldur þó meiri tryggð við Einfalda lífið og leitast vinkonurnar Sunneva og Jóhanna hvað þær geta við að endurskapa sömu dýnamíkina og sló svo eftirminnilega í gegn hjá erfingjunum auðugu. Það gengur þó hálf brösuglega hjá þeim. Þeim tekst vissulega að draga upp ákveðinn kontrast með ákafri útlitsdýrkun og nýstárlegri mállýsku gagnstætt öllu venjulega fólkinu á venjulegu vinnustöðunum sem þær heimsækja en hingað til hafa þær reynt fyrir sér sem bæði sundlauga- og stöðumælaverðir og starfsmenn Sorpu. Aftur á móti er fullmikil persónuleikasköpun í gangi sem óreyndar leikkonurnar ráða ekki nógu vel við. Afleiðingin er sú að handritið verður allt of áberandi í atburðarásinni og tjáningin óeinlæg, sem birtist kannski skýrast í viðtalsinnskotum vinkvennanna, hvar þær lýsa upplifun sinni af reynslunni. Það sem gerði The Simple Life svo ógeðslega fyndna var hversu veruleikafirrtar stöllurnar voru vegna auðæfanna sem þær njóta. Vinnuveitendur þeirra virtust líka hafa meira svigrúm til að láta þær raunverulega vinna vinnuna sína, sem gerði afþreyingargildið enn betra. Þótt Sunneva og Jóhanna séu vissulega strangheiðarlegar glamúrpíur hugsa ég að þær þurfi samt að vinna fyrir sér í raunveruleikanum og þegar það rann svo upp fyrir mér að þær væru ekki einu sinni að strita neitt við störfin í þáttunum varð áhorfið endanlega bitlaust.

Akademísk fræði á skemmtilegan og örvandi hátt

Að lokum horfði ég á Allskonar kynlíf, fræðsluþætti í umsjón Siggu Daggar kynfræðings og Ahd Tamimi, sem ólíkt hinum tveimur þáttaröðunum virðast vera alveg frumsamdir. Mér dettur allavega ekki nein fyrirmynd í hug þótt þeir samræmist auðvitað líkani sambærilegs fræðsluefnis.

Ég hreifst strax að strúktúrnum í þáttunum en þau leika sér að akademískum fræðum og vísindalegum rannsóknaraðferðum á mjög skemmtilegan og örvandi hátt. Opnunaratriðið er alltaf uppi í rúmi hjá þáttastjórnendunum, þar sem þeir velta fyrir sér viðfangsefni vikunnar með kjánalegu athæfi eða spurningum, sem kveikir áhuga áhorfenda. Því næst er viðtölum við sérfræðinga og þekkta Íslendinga blandað saman við svokallaðar vettvangsferðir, sem brjóta upp sviðsmyndina, og klínískt vísindahorn. Í lokin eru niðurstöðurnar svo dregnar saman inni í koníaksherbergi, þar sem þau Sigga og Ahd fara rækilega yfir lærdóm vikunnar. Allir liðirnir eru í eins konar spjallformi, þar sem allt er eðlilegt og ekkert fáránlegt. Það ýtir undir léttleika viðfangsefnisins, sem ég held einmitt að sé markmið þáttanna. Það er að segja að opna á heilbrigða umræðu um kynlífsheiminn. Mér finnst svolítið eins og Allskonar kynlíf sé verkefnið sem starfsferill Siggu Daggar hefur miðað að frá því að hún kom fram á sjónarsviðið. Það kemur mér því ekkert á óvart að þættirnir séu bæði skemmtilegir og vel gerðir. Ég set samt spurningarmerki við markhópinn og vettvanginn. Maður er eitthvað svo vanur því að kynfræðsla sé ætluð eldri börnum og unglingum en ég er ekki viss um að þessir þættir myndu endilega kveikja áhuga þeirra. Væri það markmiðið myndi lokuð áskriftarstöð heldur ekki vera ákjósanlegur miðill.

Það er augljóslega nóg um að vera á Stöð 2 þetta haustið. Svo blómlegt er úrvalið af íslenskri dagskrárgerð að maður þarf að velja vandlega hvað er þess virði að horfa á. Ég mun allavega passa vel upp á að missa ekki af næsta þætti af Fyrsta blikinu, sem ég leyfi mér að segja að séu bestu stefnumótaþættir Íslands frá upphafi. #Samstarfinu mun ég því miður ekki halda áfram að fylgjast með. Bjartsýn myndi ég samt alveg kíkja á þá aftur ef önnur sería yrði gerð, kannski úti á landi eða á sjó? Svo hugsa ég að ég hámhorfi á Allskonar kynlíf þegar þáttaröðin er öll komin á plúsinn, kannski með vinkonum mínum eða jafnvel mömmu minni

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Ferlega krúttlegt farsóttarsjónvarpsefni

Sjónvarp

Sameiginleg áfallastreituröskun svartra Bandaríkjamanna

Sjónvarp

Brothættur og blákaldur raunveruleiki í Systraböndum

Sjónvarp

Ferlega töff þættir sem örva bæði skynvíddir og rökvísi