Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Yfirlæknar benda á galla í hönnun nýs rannsóknahúss

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd - Landspítali
Yfirlæknar á Landspítala hafa ítrekað bent á hönnunargalla í hönnun nýs rannsóknarhúss Landspítala en segja samráð við lækna hafa skort verulega. Bæði séu fyrirhuguð opin skrifstofurými fyrir lækna mjög óhentug vinnuaðstaða og áætluð staðsetning þyrlulendingarpalls gæti raskað rannsóknum í húsinu.

Björn Rúnar Lúðvíksson, Ísleifur Ólafsson, Jón Jóhannes Jónsson og Páll Torfi Önundarson, sem allir eru starfandi yfirlæknar, segja hönnunina vera slys í uppsiglingu í aðsendri grein sem birt var í Morgunblaðinu í dag.

Læknar starfi á básum í stað skrifstofa

„Í nýja rannsóknarhúsinu er ekki gert ráð fyrir því að sérfræðingar, aðrir stjórnendur deilda eða gæðastjórar, svo dæmi séu tekin, hafi ákveðin skrifstofurými“ segir í greininni. „Þetta er afturför frá núverandi aðstöðu. Allir skulu starfa á básum án fastrar starfsstöðvar í stórum opnum skrifstofusölum“.

Þessi hönnun kallist „verkefnamiðuð vinnurými“ en þau séu mjög óhentug fyrir lækna, sem þurfi að standa upp frá sínum vinnubás og leita að lausu lokuðu rými, í hvert sinn sem þurfi að ræða viðkvæm mál. Þá hafi læknar vitanlega ekki aðgang að gögnum sínum á meðan á símtali stendur, sem teljist einnig mjög óhentugt.

„Mestur hluti starfs lækna og annarra sérfræðinga á Landspítala fer í að fjalla um þætti sem teljast viðkvæmir og krefjast einbeitingar og persónuverndar“ segir í greininni.

Þyrlupallur „muni valda verulegum titringi og stormsveipum“

Læknarnir gera einnig athugasemd við staðsetningu þyrlupalls á þaki rannsóknahússins.

„Lendingar og flugtak stórra og öflugra björgunarþyrla Landhelgisgæslunnar munu valda verulegum titringi og stormsveipum í kring um rannsóknahúsið. Ryk mun þyrlast upp en það getur truflað margar mælingar. Ekki er víst að viðkvæm rannsóknartæki og loftræstikerfi standist þau átök“ segir í greininni.

Í greininni segir jafnframt að Norðmenn hafi slæma reynslu af slíku fyrirkomulagi og þar hafi orðið alvarleg slys inni á lóðum sjúkrahúsa vegna stormsveipa frá stórum þyrlum.

„Væri góð byrjun að leiða saman lækna og arkitekta“

Læknarnir segja að erfitt hafi reynst að fá viðbrögð við þessum ábendingum. Við hönnun nýja rannsóknahússins á Landspítalanum voru sjónarmið sjö yfirlækna sniðgengin.“

„Þegar yfirlæknar reyndu að koma mótmælum á framfæri var helst að heyra að framkvæmdasýsla ríkisins eða fjármálaráðuneytið hefði mælt fyrir um óviðunandi skrifstofuhúsnæði og að hönnuðum/arkítektum væri gert að fylgja fyrirmælum þaðan þó vilji þeirra sjálfra stæði til annars“ segir í greininni.

Læknarnir segja að tilgangur greinarinnar sé að bæta vinnuumhverfi í nýju rannsóknahúsi, auka öryggi, skapa starfsnæði og gera umhverfið eftirsóknarvert fyrir framtíðar starfsfólk.

„Við höfum vitneskju um að auðvelt væri að breyta fyrirliggjandi teikningum til móts við sjónarmið okkar. Það væri góð byrjun í því sambandi að leiða saman lækna og arkítekta“ segir í greininni.