Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Telja upptök brunans vera ofhitnun rafhlöðu í rafskútu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bjarni Ingimarsson, aðstoðarvarðstjóri Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu, segir líklegt að upptök brunans í Bríetartúni fyrr í kvöld, megi rekja til rafskútu. Þá bendi aðstæður í húsinu til þess að sprenging hafi orðið, sem gæti hafa verið rafhlaða sem ofhitnaði.

Greinilegt að rúður sprungu

„Þegar við komum á staðinn þá er mikill svartur reykur út um glugga á annari hæð. Það hefur greinilega orðið einhverskonar sprenging af því að bæði var glerið úr glugganum nokkra metra frá húsinu, ásamt einhverju innbúi, gluggalistum og þessháttar“ segir Bjarni.

Íbúðin mannlaus og enginn slasaður

 „Fyrsta sem við gerðum var að fara þarna inn um gluggana á annarri hæð og byrja að slökkva þar. Við fréttum fljótlega að íbúarnir væru ekki heima, þeir hefðu verið fyrir utan“ segir Bjarni.

Grunar ykkur eitthvað um upptök eldsins?

„Okkur sýnist það hafi verið rafmagnshlaupahjól sem var þarna í hleðslu inni í íbúðinni sem gæti verið orsakavaldurinn“ segir Bjarni. Þá telur hann líklegast að rafhlaðan hafi ofhitnað og sprungið.

„Íbúðin var mannlaus og engin slys á fólki, en talsvert mikið tjón þarna á þessari íbúð og svona eitthvað minniháttar reyk- og lyktarmengun í öðrum íbúðum“ segir Bjarni.

Ólöf Rún Erlendsdóttir

Tengdar fréttir