Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Menning þöggunar og valdníðslu hjá SvFF

Mynd með færslu
 Mynd: SvFF

Menning þöggunar og valdníðslu hjá SvFF

17.09.2021 - 19:36
Það gustar um knattspyrnusambönd víðar en á Íslandi. Sænska knattspyrnusambandið (SSvF) er sakað um að hafa farið rangt með peninga sem áttu að renna til ungra knattspyrnuiðkenda. Ásakanir ganga um valdníðslu yfirmanna, þöggunartilburði og brostið traust í þessari æðstu stofnun sænskrar knattspyrnu.

Það er vefútgáfa sænska ríkissútvarpsins SVT sem greinir frá þessu.

„Traustið er brostið. Fólki líður mjög illa, segir heimildarmaður sem vill vera nafnlaus af ótta við hefndaraðgerðir.

SVT hefur rætt við um tíu manns sem starfa innan sænska knattspyrnusambandsins eða tengjast því og engin vill tjá sig nema undir nafnleynd. 

Stjórnandi eyddi gögnum

Í síðustu viku upplýsti SVT að stjórnandi hjá SvFF hafi neyðst til að hætta eftir að í ljós kom að hann hafði veitt hundruðum þúsunda sænskra króna í styrk til samtaka þar sem hann sjálfur gengdi lykilhlutverki. Peningarnir voru teknir frá verkefninu „Allir eru öðruvísi - öðruvísi er gott“, sem miðar að því að stuðla að jafnrétti kynjanna og þátttöku ungmenna í fótbolta.

Greiðslurnar voru greiddar í nokkur ár til samtaka sem breyttu nafni sínu ár frá ári á meðan kennitala og aðrar upplýsingar um samtökin héldust óbreyttar.

Í fyrra fór framkvæmdastjórinn sjálfur inn í innra kerfi SvFF og breytti upplýsingum um samtökin, samkvæmt gögnum sem SVT hefur lesið. Öllum beinum tengslum við manninn sjálfan var þá eytt.

Samtals eru það um hálf milljón sænskra króna, sem jafngildir um 7,5 milljón íslenskum krónum, sem voru ranglega greiddar út með þessum hætti samkvæmt nýjum upplýsingum frá SvFF.

Þöggun frá hendi stjórnenda

Gögn um þessar óeðlilegu greiðslur fundust í upphafi þessa árs en upplýsingunum var haldið innan fámenns hóps stjórnenda og voru aldrei tilkynntar til lögreglu. Ekki var heldur raunveruleg ástæða fyrir brotthvarfi áðurnefnds stjórnanda gefin upp þegar maðurinn yfirgaf SvFF síðasta sumar.

„Stjórnendur hafa þaggað niður í þessu. Það var ekki fyrr en SVT birti fréttina að þeir töluðu um málið,“ segir heimildarmaður.

Knattspyrnusambandið hefur lýst málinu sem svo að það sé sprottið af „hagsmunaárekstri“ og „gáleysislegum aðgerðum“ eins starfsmanns. Ennfremur hefur SvFF sagt að stjórnendur þess hafi meðhöndlað það á réttan hátt. Þeir segja einnig að peningarnir séu endurgreiddir.

En önnur skoðun er víða á aðgerðum sambandsins. Samkvæmt upplýsingum sem komið var til SVT vildu nokkrir innan sambandsins tilkynna það strax í upphafi til lögreglu - en æðstu stjórnendur voru á annarri skoðun. Málinu var stungið undir stól.

„Skipulagið er ákaflega ofan frá og það er mikil þöggunarmenning, segir heimildarmaður SVT.“

Framkvæmdastjórinn svarar fyrir sig

Maðurinn sem mikið af innri gagnrýni beinist að er Håkan Sjöstrand framkvæmdastjóri. Nokkrir heimildarmenn segja að hann hafi verndað yfirmanninn fyrrverandi – þrátt fyrir viðvaranir starfsmanna um alvarlega annmarka á starfsháttum.

„Þegar ég komst að þessu máli varð ég fyrir miklum vonbrigðum. Ég skil að fleiri starfsmenn bregðist líka við á sama hátt, en þá höfum við mismunandi hlutverk og ábyrgðarsvið sem við verðum líka að sinna eins skynsamlega og leiðrétta leið og hægt er,“ segir Sjöstrand.

Hann kannast ekki við þá ímynd að vald og skipulag væri ofan frá og niður úr og að þöggunarmenning ríki hjá SvFF.

„Ég deili í raun ekki þeirri sýn, en þetta er alvarleg fullyrðing og auðvitað mun ég fylgja henni eftir og sjá hvað gæti verið á bak við þessar skoðanir,“ segir Håkan Sjöstrand, framkvæmdastjóri sænska knattspyrnusambandsins.