Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Frakkar kalla sendiherra heim til samráðs

epa09472962 French President Emmanuel Macron speaks in front of a life-size replica of the next high-speed train TGV, at the Gare de Lyon station in Paris, France, 17 September 2021. SNCF unveiled the next generation of its high-speed TGV trains.  EPA-EFE/Michel Euler / POOL MAXPPP OUT
 Mynd: EPA-EFE - AP POOL
Emmanuel Macron Frakklandsforseti kallaði sendiherra landsins í Bandaríkjunum og Ástralíu heim til samráðs í dag. Ástæðan er sú ákvörðun stjórnvalda í Ástralíu að segja upp samningi um kaup á kafbátum smíðuðum í Frakklandi.

Heimköllun sendiherra er afar óvenjuleg í samskiptum vinaríkja enda yfirleitt beitt sem síðasta úrræði í hörðum milliríkjadeilum.

Ástralar sömdu við frönsku herskipasmíðastöðina Naval Group árið 2016 um smíði tólf dísilknúinna kafbáta. Þeim samningi var rift og þess í stað ætla þeir að notast við bandaríska tækni samkvæmt AUKUS varnarsamkomulagi Bandaríkjanna, Bretlands og Ástralíu.

Samningurinn við skipasmíðastöðina er metinn á yfir þrjátíu milljarða evra. Jean-Yves Le Drian, utanríkisráðherra Frakklands segir í yfirlýsingu að ákvörðun Ástrala sé óásættanleg í ljósi náinna tengsla ríkjanna.

Afleiðingar hennar hafi áhrif á samband ríkjanna og snerti mjög mikilvægi Indlandshafs- og Kyrrahafsvæðanna fyrir Evrópu. Frakkland hefur mikil ítök á því svæði. 

Í yfirlýsingum frá Hvíta húsinu og varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna segir að heimköllun sendiherrana sé hörmuð og að verk sé að vinna í að bæta samkomulagið við Frakka í varnarmálum.