Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Bandarískum hermönnum verður fjölgað í Ástralíu

epa09469751 Minister of Defense of Australia Peter Dutton (L) and US Secretary of Defense Lloyd Austin (R) observe the US national anthem during an honor cordon ceremony at the Pentagon in Arlington, Virginia, USA, 15 September 2021. Dutton and Austin are expected to discuss relations with China and security issues in the Asia-Pacific region.  EPA-EFE/MICHAEL REYNOLDS
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Bandarískum hermönnum verður fjölgað í Ástralíu og ríkin hefja samvinnu um þróun flugskeyta. Þetta er hluti Aukus-varnarsamkomulagsins milli Bandaríkjanna, Bretlands og Ástralíu sem æðstu ráðamenn ríkjanna kynntu í gær.

Peter Dutton, varnarmálaráðherra Ástralíu sem staddur er í Washington, segir samninginn tryggja aukna samvinnu ríkjanna, meðal annars við þróun flugskeyta og annarra hergagna.

Sömuleiðis sé vilji til þess að fleiri bandarískir landgönguliðar hafi viðdvöl í landinu en hingað til. Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna staðfesti að til standi að aukinn herafli hafi viðdvöl í Ástralíu. Hann nefndi þó engar tölur.

Dutton tilkynnti einnig að flugher landsins verði efldur líkt og sjóherinn. Samkomulagið tryggir Áströlum smíði kjarnorkunúinna kafbáta, sem eru hraðskreiðari og torfundnari en bátar knúnir jarðefnaeldsneyti.

Þeir geta haldið sig neðansjávar mánuðum saman og skotið eldflaugum um langan veg. Ástralir segja þó af og frá að kafbátar þeirra verði búnir kjarnorkuvopnum.

Scott Morrison tilkynnti í gær að Ástralir fengju langdrægar bandarískar stýriflaugar af Tomahawk gerð til afnota. 

Talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins segir samninginn ógna friði á svæðinu og magna upp vopnakapphlaup ríkjanna. Samningurinn er almennt sagður vera til höfuðs aukinni útþenslu kínversks herafla á Indlands- og Kyrrahafi, þar sem mikil spenna hefur ríkt undanfarin ár. 

Kínverska utanríkisráðuneytið gagnrýnir það sem það kallar löngu úrelt kaldastríðsviðhorf ríkjanna þriggja og kínverskir ríkisfjölmiðlar segja Ástrala nú vera orðna yfirlýsta andstæðinga Kína. 

Dutton segir Indónesa, Víetnama og Suður-Kóreumenn vera mikilvæga bandamenn á svæðinu. Sérfræðingar segja samkomulagið, sem gengur undir heitinu Aukus, vera mikilvægustu varnarráðstöfun ríkjanna frá lokum síðari heimsstyrjaldar.