Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Uppsagnir flugmanna dæmdar ólögmætar

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Félagsdómur staðfesti nú síðdegis ólögmæti uppsagna Bláfugls á flugmönnum sem eru meðlimir í Félagi Íslenskra Atvinnuflugmanna. Formaðurinn segir málið fordæmisgefandi, ekki bara fyrir flugmenn heldur fyrir öll stéttarfélög í landinu.

Félag íslenskra atvinnuflugmanna sakaði flugfélagið Bláfugl um brot á kjarasamningum vegna uppsagna 11 flugmanna félagsins í upphafi þessa árs og ráðninga nýrra flugmanna í stað þeirra í gegnum starfsmannaleigur á lakari kjörum. Bláfugl hafnaði áskorun FÍA um að draga uppsagnirnar til baka og koma þess í stað að samningaborðinu.

Félagsdómur staðfesti nú síðdegis ólögmæti uppsagna Bláfugls á flugmönnunum. Jón Þór Þorvaldsson, formaður FÍA, fagnar því í samtali við fréttastofu að þessar uppsagnir hafi verið dæmdar ólögmætar, enda hafi það verið meginkrafa flugmanna.

„Þetta er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur flugmenn, en ekki bara flugmenn heldur fyrir allan vinnumarkaðinn á Íslandi, að kjarasamningar halda gildi sínu þrátt fyrir að verið sé í samningaviðræðum, og þetta er bara mikilvægur sigur í baráttu stéttarfélaga og eftirlitsaðila stjórnvalda gegn, í raun og veru, svona framkomu og þeirri gerviverktöku sem verið er að stunda.“

Jón Þór segir óvíst með næstu skref í málinu og að lögmenn félagsins séu enn að fara yfir málið. Hann vonar þó að hægt verði að setjast að samningaborðinu í framhaldinu.

„Ég vona náttúrulega fyrst og fremst að ríkissáttasemjari boði okkur til fundar og að við getum landað þessum málum við samningaborðið eins og siðaðra manna er háttur."