Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Tveggja ára barn á gjörgæslu með COVID-19

16.09.2021 - 12:24
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Tveggja ára barn liggur á gjörgæslu Landspítalans með COVID-19. Nú liggja á spítalanum tvö börn með COVID-19 en í gær var greint frá því að unglingsdrengur lægi á barnaspítala Hringsins vegna fylgikvilla sýkingar. Þetta eru fyrstu tvö börnin sem leggjast inn á spítala hér á landi eftir að hafa smitast af COVID-19.

Valtýr Thors, barnasmitsjúkdómalæknir á Barnaspítala Hringsins, segir að barnið sem liggur á gjörgæslu sé ekki í öndunarvél og að það flytjist fljótt á almenna deild á barnaspítalanum. Barnið hafi enga undirliggjandi áhyggjuþætti, sé hraust tveggja ára barn en hafi fengið lungnabólgu af völdum COVID-sýkingarinnar. 

Vísir.is greindi frá innlögn tveggja ára barnsins nú í hádeginu. 

Unglingsdrengurinn sem liggur á Barnaspítalanum var að ljúka einangrun þegar hann var lagður inn í gær. Líðan hans er stöðug og ekki er búist við að hann þurfi að liggja inni í marga daga. Hann veiktist nokkrum dögum eftir fyrsta skammt af bóluefni. 

Valtýr segir að það komi vissulega á óvart að tvö börn leggist inn sama daginn, þau fyrstu frá því að faraldurinn barst hingað til lands. Spítalinn hafi þó alltaf verið viðbúinn því að til þess gæti komið. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV