Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Þríhliða samningur til að bregðast við ásókn Kínverja

epa09470740 US President Joe Biden delivers remarks about a national security initiative in the East Room of the White House in Washington, DC, USA, 15 September 2021. Australian Prime Minister Scott Morrison (L) and British Prime Minister Boris Johnson participated virtually.  EPA-EFE/Oliver Contreras / POOL
 Mynd: EPA-EFE - Sipa USA POOL
Samkvæmt þríhliða öryggissamningi sem Bretar, Bandaríkjamenn og Ástralir hafa gert deila ríkin með sér háþróuðum hertæknibúnaði á borð við skammtatækni og gervigreind. Ástralir hefja smíði kjarnorkuknúinna kafbáta á næstu misserum.

Samninginn gera ríkin til að bregðast við miklum vígbúnaði Kínverja á Indlands- og Kyrrahafi að því er fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins. Samningurinn, sem gengur undir heitinu Aukus, gerir Áströlum kleift að smíða sjálfir kjarnorkuknúna kafbáta í fyrsta sinni.

Það verður til þess að Ástralir segja upp samningi við franskt fyrirtæki um smíði tólf kjarnorkuknúinna kafbáta, sem utanríkisráðuneyti Frakklands harmar mjög.

Í sameiginlegri yfirlýsingu sem Joe Biden Bandaríkjaforseti, Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands og Scott Morrison forsætisráðherra Ástralíu sendu frá sér í gær segir að allt kapp verði lagt á að efla varnir Ástralíu hið fyrsta.

Eins verði tryggt að landið verði áfram kjarnorkuvopnalaust. Jacinda Ardern forsætisráðherra Nýja Sjálands tilkynnti nú fyrir skemmstu að ástralskir kjarnorkukafbátar verði ekki leyfðir innan lögsögu landsins, en umferð slíkra fara hefur verið bönnuð þar um áratuga skeið. 
 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV