Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Öryrkjar fái að vinna í tvö ár án skerðinga

Mynd: RÚV / RÚV
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, vill fara að fordæmi Svía og gefa öryrkjum, sem treysta sér til, færi á að vinna í tvö ár án þess að bætur þeirra skerðist. Flokkurinn leggur mikla áherslu á bættan hag öryrkja og aldraðra og segir Inga árangur flokksins sjást ekki síst í áhuga hinna flokkanna á málaflokknum, nú skömmu fyrir kosningar.

Inga segir að auki að flokknum sé umhugað um loftslagsmál, en þó vilji þau ekki aðgerðir sem séu íþyngjandi fyrir almenning.

„Ef að þú ert fátækur og getur ekki tekið þátt í orkuskiptum og farið yfir á rafbíl, þá samþykkjum við ekki að þú verðir skattaður og látinn greiða fyrir það af því þú sért einhver umhverfissóði og að menga meira,“ segir Inga.

Þetta er meðal þess sem fram kom í viðtali við Ingu í Forystusætinu á RÚV í kvöld, en viðtalið má sjá í heild í spilaranum hér að ofan.

Rætt er við formenn þeirra stjórnmálaflokka sem eru í framboði fyrir alþingiskosningarnar 25. september í Forystusætinu. Dregið var um röðun þeirra af handahófi. Ítarlega umfjöllun um kosningarnar má finna á kosningavef RÚV, ruv.is/x21.

Frettir's picture
Fréttastofa RÚV