Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Lýðræðishalli í byggðasamlögum eitt af kosningamálunum

Mynd: RÚV / RÚV
Eitt af stóru málunum í sameiningarkosningum fimm sveitarfélaga á Suðurlandi er að afnema byggðasamlög. Kosningar um sameiningu fimm sveitarfélaga fer fram samhliða Alþingiskosningum. Formaður samstarfsnefndar um sameininguna segir að byggðasamlögin stuðli að ákveðnum lýðræðishalla því þau endurspegli ekki endilega vilja íbúa.

Allt frá árinu 2019 hefur samstarfshópur verið að störfum á vegum sveitarfélaganna fimm, Rangárþings ytra og eystra, Ásahrepps, Mýrdalshrepps og Skaftárhrepps. Nú er komið að því að kjósa um áframhaldið. Kosningarnar eru bindandi og þarf samþykki meirihluta íbúa í hverju sveitarfélaganna sem koma að verkefninu svo af verði. Seinustu daga hafa farið fram íbúafundir þar sem áformin hafa verið kynnt fyrir íbúum.

Hittir á veikleikastrengi sveitarfélaganna

Á slíkum fundi á Hellu í gær kom meðal annars fram að með sameiningu leggist af byggðasamlög, sem er samstarfsvettvangur sveitarfélaganna í ýmsum málum. Meðal þeirra sem vöktu máls á mikilvægi þessa var Tryggvi Gunnarsson, fyrrverandi umboðsmaður Alþingis og íbúi í Rangárþingi ytra.

„Ég hef í tuttugu ár búið í gamla Holtahreppi sem nú tilheyrir Rangárþingi ytra. Í þessi tuttugu ár hef ég haft eftirlit með störfum sveitarfélaga og ríkisins í umboði Alþingis. Nú er ég hættur því og nú get ég talað. Það hefur verið afskaplega ánægjulegt að fylgjast með þessum umræðum hérna því fjölmargt sem fulltrúar sveitarfélaganna hafa sagt hefur akkúrat hitt á þá strengi sem ég hef fundið fyrir í mínu starfi, fyrir veikleikum hjá sveitarfélögum. Við megum ekki gleyma því að við búum við það lýðræðislega skipulag að við fá um að kjósa fulltrúa sem stjórna því sveitarfélagi sem við tilheyrum. En þessir fulltrúar bera líka ábyrgð.“ sagði Tryggvi í ræðu sinni.

Og hann gerði áðurnefnd byggðasamlög að umtalsefni í ræðu sinni.

„Byggðasamlögin voru hugsuð sem rekstrarutanumhald. Það sem hefur gerst á undanförnum árum er að farið er að fela þeim einstök framkvæmdar- og stjórnsýsluverkefni. En það er engin ábyrgð þar að baki og það er í raun tímaspursmál hvenær þetta verður einhver skandall. Þannig ég segi við ykkur. Takið nú mark á því sem þau eru að segja og breytið þessu. Það fer mikið betur á því að þetta sé í höndum sveitarfélaganna. Þannig það eru svo fjölmörg atriði sem fólk þarf að hafa í huga í þessum efnum. Til dæmis bara það að verkefni sveitarfélaganna hafa á síðustu árum alveg gjörbreyst. Þetta er ekki lengur spurning um einhver heimaverkefni; fjallskilin og einhver málefni innan sveitarfélagsins.“ segir Tryggvi.

Þá segir hann að fjöldi verkefna sem áður voru á hendi ríkisins hafi verið flutt yfir til sveitarfélaganna á seinustu árum.

„Þarna er verið að taka ákvarðanir um málefni einstaklinga og það skiptir máli að það sé staðið rétt að þeim hlutum og þá þarf að vera til staðar fagleg þekking og eining sem ræður við þessi verkefni. Þessi litlu sveitarfélög. Ekki bara hér heldur líka víðs vegar um landið, þau ráða bara ekkert við þetta, fyrir utan nálægðina sem skapar ákveðna erfiðleika. Þannig ég segi að við stöndum á tímamótum og það sé rétt að stíga þetta skref.“ segir Tryggvi. 

Rödd minnihluta sveitarstjórna heyrast ekki

Anton Kári Halldórsson er oddviti í Rangárþingi eystra og formaður samstarfsnefndarinnar. Hann segir að byggðasamlögin hafi verið notuð hingað til í samstarfi sveitarfélaganna til að veita lögbundna þjónustu en raddir allra kjörinna fulltrúa heyrist ekki á þeim vettvangi.

„Það sem er verið að ræða þar er að það er ákveðinn lýðræðishalli sem gætir á, af því að í rauninni er hálfpartinn valdaframsali hins kjörna fulltrúa afsalað inni í byggðasamlagið. Við getum stillt þessu upp þannig að í stjórn byggðasamlags sitja fulltrúar frá hverju sveitarfélagi en það er kannski bara einn fulltrúi frá hverju sveitarfélagi þannig að það er mjög líklegt að minnihluti í því sveitarfélagi eigi ekki aðild inn í stjórn byggðasamlagsins og þar ertu líka kominn með fulltrúa sem íbúarnir kusu ekki í sínu sveitarfélagi, sem eru beint og óbeint að taka ákvarðanir fyrir þitt sveitarfélag. Ákvörðunarvaldið er komið langt frá kjörnum fulltrúum,“ segir Anton Kári.

Hann segir að þessar sameiningarviðræður séu ekki þannig að stærri og betur stödd sveitarfélög séu að hlaupa undir bagga með minni og verr stæðum sveitarfélögum.

„Nei, það er ekki staðan á þessum sveitarfélögum og þegar við lögðum af stað í þessa vinnu í lok árs 2019 þá var allt í toppmálum hjá öllum þessum sveitarfélögum og mikil uppbygging alls staðar. Þetta snýst alls ekki um að það sé verið að redda einhverju sveitarfélagi, það er alls ekki þannig og þessi sveitarfélög standa öll bærilega,“ segir Anton.

En hvernig taka íbúar í þessar sameiningarviðræður?

„Tilfinningin er bara góð, við fáum það á tilfinninguna að íbúarnir séu tilbúnir að ræða þetta og tilbúnir að skoða málið og kynna sér og taka afstöðu. Maður heyrir í íbúum sem eru á móti og sem eru með, þannig að það er í rauninni ómögulegt að segja til um hvernig þetta fer á endanum en það góða er að umræðan er í gangi og þetta er rætt víða.“ segir Anton. 

Ef að sameiningu verður verður til landstærsta sveitarfélag landsins, eða rúmlega 15.600 ferkílómetrar og íbúar þess rúmlega 5.200. Lengsta vegalengd á milli íbúakjarna er frá Laugalandi að Kirkjubæjarklaustri, um 180 kílómetrar. Líkt og þegar Múlaþing varð til við sameiningu sveitarfélaga á Austurlandi stendur til að setja á fót íbúaráð, eða nokkurskonar heimastjórnir, í hverju sveitarfélagi. 

„Þetta er hugsað til að veita íbúum hvers gamla sveitarfélagsins aðgengi að fulltrúum en mín tilfinning er sú að það er þannig að ef við erum að fara að sameina í eitt stórt sveitarfélag þá verð ég ekki lengur íbúi í Rangárþingi eystra, heldur í Sveitarfélaginu Suðurland, þó að það sé ekki komið nafn á það, þannig að við verðum eitt sveitarfélag og þeir fulltrúar sem verða kjörnir sinna hagsmunum alls sveitarfélagsins þannig að mér finnst líklegra en hitt að hverfisráð eða heimastjórnir, að með tíð og tíma komi þær til með að leggjast af.“ segir Anton.