Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Erfiður vetur framundan fyrir ferðaþjónustuna

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Ákvörðun Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna að setja Ísland á hæsta hættustig í ágúst hafði merkjanleg áhrif á ferðaþjónustu, sérstaklega nú í september. Útlit er fyrir að veturinn verði ferðaþjónustunni erfiður og erlendir ferðamenn færri í ár en spáð var.

Þetta hefur Morgunblaðið eftir Jóhannesi Þór Skúlasyni, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar í dag. 

Einnig er haft eftir Jóhannesi að ferðamenn verði nær því að vera sex hundruð þúsund en þau sex til tæplega níu hundruð þúsund sem greiningardeildir bankanna og Ferðamálastofa spáðu í sumar.

Erfitt sé að meta mannaflaþörf í greininni í vetur en Jóhannes telur mikilvæga hópa ekki láta sjá sig. Þar eigi hann einkum við breska ferðamenn og ferðafólk frá Asíu sem flykkst hafi til landsins um jól og áramót. 

Viðbúið sé að slakna muni á ferðaþjónustunni og því áríðandi að stjórnvöld bregðist við með viðeigandi hætti. „Við eigum von á því að töluverðu af fyrirtækjum, t.d. á landsbyggðinni, verði bara lokað í vetur,“ segir Jóhannes Þór.