Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Enn fjölgar rafhleðslustöðvum

16.09.2021 - 09:14
Mynd með færslu
 Mynd: Akureyri.is - RÚV
Þeim sem áttu leið um Akureyri í sumar á rafbíl, þótti vanta nokkuð upp á fjölda hleðslustöðva í bænum. Nú hefur fleiri stöðvum verið bætt við og áætlað að fjölgun þeirra verði enn meiri á næstunni. 

Fjórar nýjar stöðvar

Rafbílum heldur áfram að fjölga og rafhleðslustöðvar hafa risið, en þær hafa ekki þótt vera alveg í takt við fjölda notenda. Fallorka opnaði nýlega fjórar nýjar hleðslustöðvar á Akureyri og eru þær nú orðnar um 20 í bænum. Fallorka áætlar að reisa fleiri stöðvar á næstu misserum auk áforma Teslu um að því að opna fljótlega allt að 10 hleðslustöðvar við Norðurtorg á Akureyri. 

Orkusjóður styrkir verkefnið

Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið hefur í gegnum Orkusjóð styrkt verkefni eins og uppsetningu rafhleðslustöðva. Orkusjóður hefur það hlutverk að stuðla að hagkvæmri nýtingu orkuauðlinda með styrkjum eða lánum, einkum til aðgerða sem miða að því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Opnun hleðslustöðvanna fjögurra á Akureyri er hluti af styrksúthlutun Orkusjóðs og er samstarfsverkefni Fallorku, Vistorku, Norðurorku og Akureyrarbæjar.