Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Ef ekkert verður gert verður hann nauðungarvistaður

Mynd: Rúnar Ingi Garðarsson / Skjáskot
Ef ekkert verður að gert verður hann nauðungarvistaður á geðdeild þegar hann verður fullorðinn. Þetta segir faðir 11 ára drengs með flóknar geðraskanir. Barna- og unglingageðdeild telur sig ekki ráða við vanda drengsins og hefur ítrekað leitað eftir aðstoð frá Barnavernd án árangurs. Drengurinn hefur reynt að svipta sig lífi og ítrekað komist í kast við lögin. 

Drengurinn fékk fyrst greiningu þegar hann var sex ára og hún hljóðaði upp á mjög flókin frávik í taugaþroska og miklar sérþarfir. Þá var föður hans ráðlagt að hætta að vinna og hefur hann ekki unnið síðan.

Síðan þá hefur drengurinn verið greindur með tengslaröskun, tourette, kvíða, mótþróaröskun, svefntruflanir, ADHD og þráhyggju. Þetta birtist meðal annars í ofsafenginni hegðun og á köflum ofbeldisfullri hegðun. Hann tekur fimm tegundir lyfja daglega og hefur verið í meðferð á BUGL síðan hann var sex ára.  

 Var vísað úr skóla í 3. bekk

Honum var vísað úr grunnskóla þegar hann var átta ára, að sögn föðursins, en fram að því hafði hann eingöngu verið í skólanum hluta af venjulegum skóladegi. Hann fékk þá undanþágu til að fara í Brúarskóla, sem er sérskóli fyrir börn frá tíu ára sem eru með  alvarlegan geðrænan og tilfinningalegan vanda. 

Drengurinn hefur dvalið í sértækri frístundamiðstöð eftir skólatíma.  Þar var hann með að minnsta kosti tvo starfsmenn með sér alla daga, en þegar skólinn byrjaði eftir sumarfrí fengu foreldrarnir þau skilaboð að starfsfólk treysti sér ekki til að taka á móti honum lengur vegna hegðunar hans. 

„Gríðarlega erfið hegðun barnsins gagnvart börnum og starfsmönnum hefur orsakað að starfsmenn sértæku félagsmiðstöðvarinnar treysta sér illa til að taka á móti barninu eftir að skóla lýkur í vetur,“ segir í bréfi sem Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar sendi foreldrunum í ágúst. Þar segir ennfremur að frístundahluti skóla- og frístundasviðs telji að barninu væri betur borgið í sérsniðinni heildstæðri þjónustu þar sem fagmenn kæmu að þjónustu við barnið allan daginn.

Þessi sérsniðna heildstæða þjónusta er aftur á móti ekki til, að sögn föðursins og því nýtur drengurinn engrar slíkrar þjónustu. „Það var verið að vísa okkur á þjónustu sem er ekki til.“

Hafa tilkynnt sjálf til barnaverndar

„Með lyfjum og aðstoð frá BUGL erum við að reyna að gera okkar besta. En kerfið býður ekki upp á meiri aðstoð en viðtalsmeðferðir á BUGL . Við höfum leitað aðstoðar annars staðar, við höfum tilkynnt sjálf málin til barnaverndar,“ segir faðirinn.

Barna- og unglingageðdeild Landspítala, BUGL, veitir 3. stigs þjónustu, en geðlæknir drengsins hefur skilgreint að hann hafi þörf fyrir þjónustu á 4. stigi. „BUGL er búið að reyna til þrautar allt sem þau geta og er uppiskroppa með hugmyndir nema Barnavernd stígi eitthvað inn í,“ segir faðirinn sem segir að drengurinn þyrfti í rauninni manninn með sér.

Hefur komist ítrekað í kast við lögin

Drengurinn hefur komist í kast við lögin meðal annars fyrir vopnaburð, líkamsárásir og fyrir skemmdarverk. Hann kveikti í heimili fjölskyldunnar í sumar. „Hann ætlaði að drepa sig og drepa okkur. Það var hugsunin hjá honum. Ég náði að slökkva í,“ segir faðirinn. „Svo var atvik  tveimur vikum seinna þar sem hann gengur berserksgang í skammtímadvöl og hótar þar bæði starfsmönnum og lögreglu með vopnum. Lögregla vissi ekki hvað hún átti að gera og ég kem á staðinn. Þar kemur rannsóknarlögregla líka, sem hefur líka samband við Barnavernd en fær sömu svör og við: að það sé ekkert aðhafst í þessu máli af hendi Barnaverndar.“

Og hver eru rök Barnaverndar? „Að hann er veikur.“ Og hefur Barnavernd ekki afskipti af veikum börnum? „Ekki samkvæmt síðasta bréfi sem ég fékk frá þeim.“

BUGL hefur undanfarið ár sent Barnavernd erindi í þrígang til að leita aðstoðar þar fyrir drenginn, en því hefur verið hafnað. Faðirinn kannaði nýverið hvort Sjúkratryggingar myndu greiða fyrir meðferð drengsins erlendis, en því var hafnað á þeirri forsendu að um væri að ræða andleg veikindi. Hann segist hafa íhugað að flytja úr landi til að fá viðeigandi meðferð fyrir drenginn.

Nú er hann 11 ára gamall, er að fara að detta í unglingsárin. Hvað sjáið þið fyrir ykkur í framtíðinni? „Ef ekkert verður að gert þá verður hann eins og var í fréttum fyrir nokkrum vikum - einstaklingur nauðungarvistaður á geðdeild. Líklega réttargeðdeild, af því að það eru ekki til úrræði. Hann verður sá einstaklingur í framtíðinni ef ekkert verður að gert. Hann verður á milli tannanna hjá lögreglu, hann verður kerfismatur. Mig kvíður fyrir 18 ára afmælisdeginum hans þegar það tekur allt annað kerfi við honum.“