Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Diljá Ýr kemur inn í landsliðshópinn fyrir Hlín

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú

Diljá Ýr kemur inn í landsliðshópinn fyrir Hlín

16.09.2021 - 14:47
Þorsteinn Halldórsson, þjálfari kvennalandsliðsins í fótbolta, hefur ákveðið að velja inn í hópinn Diljá Ýr Zomers fyrir Hlín Eiríksdóttur sem er meidd. Ísland mætir Hollandi á þriðjudag í undankeppni HM 2023.

Hlín fór meidd af velli í fyrri hálfleik í 1-0 sigri Piteå gegn AIK í sænsku úrvalsdeildinni um liðna helgi. Um tíma leit út fyrir að Hlín myndi vera tilbúin í landsliðsverkefnið en Þorsteinn Halldórsson þjálfari liðsins sagði í á fundi í dag að hann myndi kalla inn nýjan leikmann í stað Hlínar eftir bakslag í morgun.

Sú er Diljá Ýr Zomers sem leikur með BK Häcken í sænsku úrvalsdeildinni. Hún hefur staðið sig afar vel með Håcken á leiktíðinni og gert sex mörk í 13 leikjum. Diljá er nítján ára og kom til Håcken frá Val í mars síðastliðnum.

Ísland mætir Hollandi á þriðjudaginn kemur og verður leikurinn í beinni útsendingu á RÚV kl. 18: 45.