Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Búið að vera klúður frá upphafi til enda“

16.09.2021 - 08:42
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Samsett
Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, á vart orð yfir því hvernig eitt klúðrast á fætur öðru eins og hann orðar það í tengslum við rekstur gas- og jarðgerðarstöðvarinnar Gaju Jarðgerð var stöðvuð í stöðinni eftir að myglugró fannst.í þaki og burðarvirki.

„Málið er náttúrulega búið að vera klúður frá upphafi til enda og nú nýlega kom í ljós að moltan er óhothæf með þungmálmum og nú er húsið sjálft sem er í sjálfu sér glænýtt komið með myglu og það virðist ekki hafa verið hugað að því hvaða framleiðsla átti að vera í húsinu svo að það er ekki eitt það er allt" segir Eyþór Arnalds fulltrúi minnihlutans í borgarstjórn.

Eyþór segir marga eiga að hafa eftirlit með framkvæmdinni en á endanum sé Gaja félag í meirihlutaeigu Reykjavíkurborgar. Borgin þurfi að huga að sínum málum.

 „Og þegar maður sér þessi mál koma aftur og aftur upp, Fossvogsskóli, aðrir skólar og svo bragginn hvernig verkstjórn hefur verið þá er alveg ljóst að ein báran er ekki stök."

Í tilkynningu frá fyrirtækinu Límtré Vírneti segir að mygla geti myndast á öllu byggingarefni. Forsendan sé hátt rakastig. Ástæðan myglu sé  EKKI að límtré hafi verið notað í burðarvirki. Fyrirtækið hafi framleitt límtré í byggingar í  tæp fjörutíu ár.

Myglugró greindist í þaki og burðarvirki GAJU í  ágúst og fullvinnsla á lífrænum úrgangi í moltu hefur verið stöðvuð tímabundið vegna þessa.  Líf Magneudóttir, stjórnarformaður SORPU, segir myglugróna vekja spurningar um það hvernig staðið var að hönnun og efnisvali fyrir húsnæði GAJU.

Framkvæmdir við gas- og jarðgerðarstöðina hófust í október 2018. Stöðin er tæpir þrettán þúsund fermetrar alls. Upplýsingar til stjórnar SORPU á byggingartíma voru langt frá því nægar samkvæmt skýrslu innir endurskoðunar Reykjavíkurborgar. „Verulega ábótavant og jafnvel villandi“ voru orð sem notuð voru  í skýrslu Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar. 

Samkvæmt upplýsingum frá SORPU hafa óháðir sérfræðingar verið fengnir til að taka út umfang mygluvandans, leggja fram tillögur til úrbóta og tryggja öryggi starfsfólks. Stöðvun fullvinnslu á lífrænum úrgangi á ekki að hafa áhrif á getu GAJU til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá lífrænum úrgangi.