„Virkuðu stressuð og fylgdust með fréttum af morði“

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Gígja Gunnarsson - RÚV
Rúmenskur nágranni Angjelins Sterkaj greindi frá því í skýrslutöku í morgun að hann hefði verið beðinn um að skutla jepplingi og fötum norður í Varmahlíð, daginn eftir að Armando Beqiri var myrtur fyrir utan heimili sitt. Þegar hann hefði komið þangað ásamt eiginkonu sinni hefðu Angjelin og Claudia Sofia Carvahlo virkað stressuð og verið að fylgjast með sjónvarpsfréttum af morði.

 

Skýrslutakan fór fram í gegnum síma. Hún var nokkuð óvenjuleg þar sem upphaflega stóð til að hún færi fram í gegnum Teams á lögreglustöð í Rúmeníu. Lögreglan þar reyndist hins vegar ekki samtarfsfús og krafðist þess að slík beiðni færi fram í gegnum diplómatískar leiðir ef hún ætti að staðfesta að vitnið væri það sem það segðist vera.

Nágranninn sagðist stundum hafa skroppið til að kaupa sígarettur fyrir Angjelin en vissi ekkert af neinum hótunum í hans garð. Íbúð Angjelins hefði hins vegar oft verið full af fólki.  

Nágranninn var beðin um að rifja upp laugardagskvöldið sem Armando Beqiri var myrtur. Hann mundi eftir því að hafa hitt Angjelin  þetta kvöld og að hann hefði verið mjög órólegur og spurt hann hvort lögreglan væri fyrir utan. Hann hefði þó ekki séð hvort Angjelin var vopnaður en hann hefði verið með hliðartösku og að hann myndi eftir því að hafa séð Angjelin áður með byssu.

Nágranninn sagðist ekki hafa séð neina aðra í kringum íbúð Angjelins þetta kvöld og að hann hefði ekki farið inn í íbúðina.

Hann var síðan beðinn að rifja upp þegar Claudia hafði samband við hann og bað hann um að skutla jepplingi norður í land, um 300 kílómetra leið, þar sem hann hitti fyrir Angjelin og Claudiu. Þótt nákvæm staðsetning hafi ekki komið fram í skýrslutökunni var eflaust verið að vísa til Varmahlíðar þar sem Angjelin var í snjósleðaferð sem hefur ítrekað borið á góma í réttarhaldinu.

Hann sagði að Angjelin og Claudia hefðu virkað stressuð þegar hann hitti þau og að þau hefðu verið að fylgjast með fréttum í sjónvarpi af einhverju morði.

Verjandi Angjelins spurði nágrannann nánar út í það þegar hann hitti Angjelin á laugardagskvöldinu og hvort hann hefði virkað hálf ofsóknaróður og haft af því áhyggjur að einhver væri að fylgjast með honum. Já, svaraði nágranninn, en hann hefði gefið lítið fyrir þetta og bara talið að þetta væru áhrif af einhverjum fíkniefnum. 

Verjandi Claudiu Sofiu vitnaði í skýrslutöku lögreglu þar sem lögreglan sagði nágrannann vera að ljúga og það þyrfti að draga allt upp úr honum og að nágranninn hefði svarað að hann vissi ekkert um eitthvað morð. Verjandinn vildi að nágranninn viðurkenndi að tilgangur ferðarinnar hefði verið að fara með föt til Angjelins en saksóknari gerði athugasemdir við þessa spurningu og taldi hana leiðandi. Dómari tók undir það og verjandinn bakkaði með hana.

Eiginkona nágrannans gaf skýrslu í gegnum sama síma. Hún sagðist hafa verið heima laugardagskvöldið 13.febrúar, kvöldið sem Armando Beqiri var myrtur, en hún hefði ekki hitt Angjelin. Hún rifjaði upp ferðina sem þau hjónin fóru norður í land á sunnudeginum. Eiginmaðurinn hefði fengið símtal frá Claudiu Sofiu og verið beðin um að skutla jepplingi og fötum.

Hún sagðist hafa hitt Claudiu og Angjelin þegar þau komu norður.  Það hefði verið þungt andrúmsloft og skrýtið og henni hefði ekki litist vel á svipinn á þeim. Þau hefðu síðan ekið á öðrum bíl til Reykjavíkur og lagt honum á fyrirfram ákveðnum stað.  Undir lok skýrslutökunnar tók hún fram að hún hefði einhvern tímann séð Angjelin með byssu í íbúðinni, hann hefði verið að fíflast eitthvað með hana og hún orðið mjög hrædd. 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV