Vilja hverfa frá refsimenningu til batamenningar

15.09.2021 - 12:21
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Með okkar augum
Dómsmálaráðherra og félagsmálaráðherra fengu í morgun afhenda skýrslu með tillögum til úrbóta í fangelsum landsins. Formaður stýrihópsins segir refsimenningu hafa þrifist í þúsundir ára.

Þetta er önnur skýrslan sem hópurinn skilar af sér. Tolli Morthens er formaður stýrihóps sem vann skýrsluna. 

„Stærsta málið í þessari skýrslu er í raun og veru að það sé gengist við þörfinni á breytingu, að það sé gengist við því að við þurfum að mæta einstaklingum í þessum málaflokki út frá mannúðarsjónarmiði. Við getum sagt að það spegli dálítið þá öldu í samfélaginu í sambandi við öll umönnunarmál, hvort sem það eru aldraðir, geðfatlaðir, hvar sem okkur ber niður þá erum við að fara frá valdmiðaðri nálgun gagnvart skjólstæðingum yfir í batamenningu og valdeflandi menningu. Dramatískasta dæmið um þetta eru fangar og þar hefur ekkert breyst í þúsundir ára. Þetta er svo gömul arfleifð þessi refsimenning.“ segir Tolli.

Litla Hraun komið á tíma

Meðal þess sem kynnt er í skýrslunni er svokallað Batahús og að efla geðheilbrigðisteymi, sem er þegar komið til framkvæmda. Þá er einnig lagt til að efla starf fangavarða og auka framboð menntunar innan veggja fangelsanna. Búið er að ráðstafa einum komma sex milljarði króna til endurbóta á Litla Hrauni sem Tolli segir löngu tímabærar.

„Hvorki fyrir starfsfólk eða skjólstæðinga er Litla Hraun boðlegt. Mikið af því húsnæði sem er notað í umönnun í samfélaginu er úr sér gengið og gamalt og stendur í vegi fyrir því að við getum unnið eftir kröfum samtímans.“ segir Tolli.

Mikill fjárhagslegur ávinningur af tillögunum

Arnar Haraldsson lagði mat á fjárhagslegan ávinning af tillögum skýrslunnar. Þar er til mikils að vinna að hans mati.

„Endurkoma fanga gæti dregist saman um 18 prósent á næstu 15 árum. Það birtist í fjárhagslegum skilningi í arðsemi upp á 15 prósent. Við erum að horfa á hver er samfélagslegur kostnaður við afbrot þessara einstaklinga og svo metum við hver kostnaðurinn er við að innleiða þessar tillögur. Mismunurinn þarna á milli gæti verið arðsemi allt að 15 prósent.“ segir Arnar.