Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Vilja gera þjónustu við aldraða markvissari

Mynd með færslu
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Heilbrigðisráðherra hefur falið Sjúkratryggingum Íslands að semja við Fjallabyggð um ný og fjölbreyttari úrræði í öldrunarmálum. Bæjarstjóri Fjallabyggðar telur nauðsynlegt að endurmeta þjónustu við aldraða og horfa til lengri framtíðar en gert hafi verið.

Fjallabyggð hentug til að leiða vinnuna

Ákveðið var að bjóða upp á samningaviðræður á milli Sjúkratrygginga og Fjallabyggðar í kjölfar draga að stefnu um heilbrigðisþjónustu við aldraða. Fjallabyggð þykir vegna stærðar sinnar, staðsetningar, innviða og lýðfræðilegrar samsetningar henta vel til að leiða vinnu í þróun öldrunarþjónustu.

Elías Pétursson bæjarstjóri í Fjallabyggð segir að einblínt hafi verið um of á að byggja hjúkrunarheimili en það þurfi að breytast. „Í grunninn snýr þetta að því að þessi drög að stefnu leiða það í ljós að núverandi fyrirkomulag þjónustu við aldraða er tæplega sjálfbært til framtíðar. Þar að leiðandi snýr vinnan sem við erum að fara út í að reyna að semja og finna nýjar leiðir í þjónustu við aldraða,“ segir Elías.

Mikilvægt að endurhugsa öldrunarþjónustu

Markmiðið er að nýta þá fjármuni sem núna fara í hjúkrunarrými betur með til dæmis sveigjanlegri dvöl. Elías segir að fólk eigi ekki að þurfa að leggjast inn á heimili til að njóta þjónustu. Það sé því mikilvægt að skoða hvernig hægt verði að koma til móts við mismunandi þarfir þessa stóra og sundurleita hóps. 

„Næstu skref eru í rauninni að annars vegar að setjast niður með Sjúkratryggingum Íslands en hins vegar líka að velta því sér bara fyrir okkur hér heima hvað við getum gert betur til langrar framtíðar til að þjónusta eldri borgara,“ segir Elías.