Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Viðræður hefjast milli Spánarstjórnar og Katalóna

epa08065416 Spanish acting Prime Minister Pedro Sanchez speaks to media as he arrives for a European Council summit in Brussels, Belgium, 12 December 2019. An European Council meeting will be held in Brussels on 12 and 13 December during which the EU27 leaders among other topics will discuss the Brexit and preparations for the negotiations on future EU-UK relations after the withdrawal as well as a revision of the European Stability Mechanism (ESM) Treaty.  EPA-EFE/JULIEN WARNAND
Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar og leiðtogi Sósíalistaflokksins. Mynd: EPA-EFE - EPA
Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar, fundar með Pere Aragones leiðtoga heimastjórnar Katalóníu á morgun, miðvikudag um samband héraðsins við ríkisstjórnina í Madrid. Ekki er talið að viðræðurnar skili árangri enda eru sjónarmið nánast óásættanleg.

Tilgangur fundarins er að ræða stjórnmálaástandið í héraðinu en í október 2017 efndi þáverandi heimastjórn til atkvæðagreiðslu um sjálfstæði þess í óþökk stjórnvalda í Madrid. Í kjölfarið var lýst yfir sjálfstæði sem varði afar stutt.

Sanchez segir meira jafnvægi ríkja í Katalóníu nú en 2017 eða 2019 en þá voru níu leiðtogar aðskilnaðarsinna fangelsaðir. Forsætisráðherrann féllst á viðræður eftir að flokkur Aragones, Vinstrilýðveldisflokkur Katalóníu ERC tryggði minnihlutastjórn hans stuðning í þinginu. Viðræður hófust í febrúar 2020.

Fresta þurfti viðræðum þegar kórónuveirufaraldurinn skall á en væntingum um árangur nú er stillt í hóf.

Kröfur aðskilnaðarsinna eru einkum tvær, almenn sakaruppgjöf allra sem komu að sjálfstæðisyfirlýsingunni 2017 og að stjórnin í Madrid samþykki nýja þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfsákvörðunarrétt héraðsins.

Ríkisstjórnin er algerlega andvíg hvoru tveggja þótt forsætisráðherrann segist geta fallist á atkvæðagreiðslu sem takmarkist við stöðu Katalóníu innan Spánar.   

Frá því að viðræðum var frestað í fyrra hafa hinir hófsamari aðsklnaðarsinnar í Vinstrilýðræðisflokknum náð undirtökum í stjórn Katalóníu en harðlínuflokkurinn Saman fyrir Katalóníu JxC, hefur nú minni ítök. 

Það varð til þess að ríkisstjórn Spánar ákvað að náða leiðtoga aðskilnaðarsinna og féllst á viðræður til að leysa pólítískan vanda héraðsins. Það er mjög í anda Vinstrilýðræðisflokksins en leiðtogar JxC segjast algerlega andsnúnir öllum samningaviðræðum.