„Við skjótumst ekki undan ábyrgð og viljum gera betur“

15.09.2021 - 09:09
Mynd: Ásrún Brynja Ingvarsdóttir / RÚV
Borgaryfirvöld gangast við því að vinnubrögð hafi ekki verið nógu góð og upplýsingamiðlun nógu skýr þegar kemur að myglu- og rakavandamálum í skólahúsnæði í borginni. Dóra Björt Guðjónsdóttir segir að borgaryfirvöld séu að setja upp nýja verkferla, hvernig eigi að bregðast við þegar mygla og rakavandamál koma upp í skólum.

Mygla hefur síðustu ár greinst í fjölda skólabygginga á höfuðborgarsvæðinu og hefur þurft að færa nemendur til, svo þeir geti sinnt náminu við boðlegar aðstæður. Þar hefur Fossvogsskóli verið í brennidepli en greinst var frá því í gær að öll starfsemi leikskólans Kvistaborgar í Fossvogi færist í húsnæði Safamýrarskóla frá og með þriðjudeginum í næstu viku. Mygla greindist á Kvistaborg 2017 en vonast er til að skólastarfið færist aftur í Fossvoginn fyrir jól. Flutningur í Safamýri var kynntur starfsfólki og foreldrum á fundum í fyrrakvöld. Þar kom fram að verkfræðistofan Efla telur að fara verði í gagngerar endurbætur á elsta hluta skólans sem byggður var 1972, og hentar illa starfi nútíma leikskóla. 

Dóra Björt segir að þessi mál verði eigi nú að vera komin í betri farveg en áður. „Það voru ekki nægilega skýrir ferlar til staðar og það er kannski þessi mikilvægi lærdómur sem við höfum verið að draga af fossvogsskólamálinu. Við erum öll sammála um að ýmislegt hefði betur mátt fara, utanumhald, upplýsingamiðlun og vinnubrögðin, það að mismunandi svið borgarinnar tali saman og að upplýsingamiðlunin sé með fullnægjandi hætti þannig að foreldrar fylgi málinu frá a-ö. Sem betur fer erum við komin á þann stað að það er búið að bæta verulega úr þessari upplýsingamiðlun, það er mikið samráð, þegar það þurfti núna að færa börnin úr skólanum var farið í samráð við foreldra frekar en að við myndum bara ákveða eitthvað til þess að reyna að komast að niðurstöðu sem mest eining var um,“ segir Dóra Björt. 

Samþykkt var að ráðast í þessa vinnu í vor. Dóra Björt segir að þetta sé tekið þetta mjög alvarlega, og þess vegna var ráðist í þessa umfangsmiklu vinnu. „Við skjótumst ekki undan ábyrgð og viljum gera betur og við höfum verið mjög auðmjúk gagnvart þessu verkefni sem er ansi flókið,“ segir Dóra Björt. 

Verkfræðistofan Efla kom með umfangsmiklar tillögur að því sem þyrfti að laga og nú er hafin vinna við það. „Það er auðvitað búið að eyða mörg hundruð milljónum í þetta mál þannig að þetta strandar auðvitað ekkert á fjármagni né vilja í rauninni, þetta strandar svolítið á því að meira að segja fræðifólkinu og sérfræðingunum greinir á um hvað eigi í rauninni að skoða, hvort það eigi að testa efnið sjálft eða hvort það sé myglugró í lofti eða annað, og það er það sem ég kalla rosalega eftir að yfirvöld láti vinna þessar greiningar til þess að finna út um þessi viðmið,“ segir Dóra Björt.