Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Tennis, tekjumöguleikar og leikgleði

epa09462751 Emma Raducanu of Great Britain reacts as she plays Lelyah Fernandez of Canada during the women's final match on the thirteenth day of the US Open Tennis Championships at the USTA National Tennis Center in Flushing Meadows, New York, USA, 11 September 2021. The US Open runs from 30 August through 12 September.  EPA-EFE/JUSTIN LANE
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Tennis, tekjumöguleikar og leikgleði

15.09.2021 - 16:43
Breskir fjölmiðlar þreytast ekki á að endurtaka að Emma Raducanu, sem sigraði opna bandaríska tennismótið nýlega, var fyrir nokkrum mánuðum venjuleg skólastúlka að taka stúdentspróf.

Raducanu þykir sýna smitandi leikgleði, sem í viðbót við uppruna hennar og hæfileika fá breska fjölmiðla til að spá því að tekjumöguleikar hennar slái öll met. Allt þetta veitir innsýn í peningamaskínu íþróttanna.

Úthverfaklúbbur í tennis ratar í landsfréttirnar

Fagnaðarlætin í tennisklúbbnum í Bromley, úthverfi höfuðborgarinnar, hefðu undir venjulegum kringumstæðum ekki ratað í landsfréttirnar í Bretlandi. En það var ekki verið að fagna neinum venjulegum sigri. Hin átján ára Emma Raducanu var að sigra í opnu tenniskeppninni í New York og félagarnir í gamla klúbbnum hennar fögnuðu ákaft.

Einstakur sigur á opna bandaríska tennismótinu

Sigurinn var um margt einstakur. Keppnin í New York var aðeins önnur stórkeppnin sem Raducanu tók þátt í. Sú fyrsta, Wimbledon keppnin í vor endaði ekki sem best. Þó hún hefði engan keppnisferil var Raducanu boðin þátttaka upp á von og óvon.

Fall í Wimbledon-keppninni en samt rosa gaman

Það eitt að fá að keppa var glæsilegur árangur en hún hætti keppni þegar hún var orðin ein af sextán keppendum, glímdi við öndunarerfiðleika. Hún sagði eftir á að það eitt að sjá sig sjálfa sig á risastórum skjá hefði ruglað hana í ríminu. Hún, sem hafði aldrei spilað fyrir fleiri en hundrað áhorfendur, stóð allt í einu frammi fyrir um fimmtán þúsund manns og í beinni útsendingu.

En sama samt. Það skemmtilegasta sem hún hefði upplifað, allt alveg ótrúlegt, sagði Raducanu eftir Wimbledon. Hæfileikarnir voru augljósir en það heyrðist að hún þyrfti líklega tíma til að aðlagast nýju keppnisumhverfi. En nei, mánuði síðar kom hún, sá og sigraði á opna mótinu í New York. Og bresku íþróttafréttamennirnir alveg að missa sig, Raducanu hefði sigrað með stæl.

Bretar hafa átt erfitt uppdráttar á heimssviðinu í tennis

Hún er fyrsti kvenkyns tennisleikarinn til að sigra á opna bandaríska mótinu síðan 1977. Þegar Raducanu var að taka á móti bikarnum í New York var móðir hennar að taka á móti bikar fyrir hönd dótturinnar sem besti tennisleikarinn í sínu héraði. Ferillinn óneitanlega farið á flug.

Innflytjendasögur í tennis

Raducanu er einkabarn, dóttir kínverskrar móður og ungversks föður. Foreldrarnir vinna í fjármálageiranum, kynntust í Kanada en fluttu til Bretlands þegar Emma var tveggja ára. Raducanu segir foreldrana hafa gert miklar kröfur en hún kann að meta það. Vill reyndar svo skemmtilega til að hin bandaríska Layla Fernandez, sem Raducanu sigraði í New York, er líka innflytjandi á táningsaldri. Tvær sígildar sögur um innflytjendur sem spjara sig. Raducanu hefur um árabil verði í úrvalshópi Breska tennissambandsins og er þegar með sterkt teymi í kringum sig.

Tennis, alþjóðleg íþrótt og því með mikla tekjumöguleika

Tennis er ein alþjóðlegasta íþróttin og tekjumöguleikarnir því miklir. Fyrir fyrirtæki sem leita eftir afburða íþróttafólki að vinna með er fjölþjóðlegur bakgrunnur Raducanu áhugaverður. Hún talar ungversku og mandarín í viðbót við ensku. Skírskotun hennar nær því langt út fyrir Bretland. Hún er líka góð fyrirmynd, er stjörnunemandi í viðbót við tennisinn. Pabbinn hefur stýrt tennisferlinum en séð til þess að hún hefði tíma í annað en bara tennis. Og Raducanu spilar tennis af hrífandi hjartans list og gleði, hennar helsti styrkur.

Tennis tekjuvæn grein fyrir konur

Svissneski tennisleikarinn Roger Federer er sjöundi tekjuhæsti íþróttamaður heims samkvæmt úttekt Forbes fjölmiðlafyrirtækisins. Og tennis veitir konum mikla tekjumöguleika: níu tekjuhæstu íþróttakonur heims eru allar tennisleikarar.

Ferill Osaka sýnir að margt hefur breyst í tennis og tekjum

Sú tekjuhæsta er Naomi Osaka, númer eitt á heimslista kvenkyns tennisleikara, númer tólf á tekjulista karla og kvenna. Osaka er líka af blönduðum uppruna, ættuð frá Haítí og Japan, og hefur verið óhrædd að játa veikleika sína, sagt frá geðrænum vandamálum. Og tekið afstöðu í málum eins og réttindabaráttu svartra. Hvort tveggja hefði einu sinn fælt fyrirtæki frá en öldungis ekki lengur. Osaka er á samning hjá fimmtán fyrirtækjum, meðal annars tískufyrirtækinu Louis Vuitton og úrafyrirtækinu Tag Heuer.

Dollaramerkin fljúga en Raducanu heldur ró sinni

Dollaramerkin fljúga í breskri umfjöllun um Raducanu og tekjumöguleika hennar og tölurnar fara snarhækkandi. Kannski nær hún árstekjum upp á 100 milljónir dala, Osaka var með 60 milljónir í fyrra. Og kannski verður Raducanu tekjuhæsti íþróttamaður Breta, ferillinn gæti lagt sig á milljarð punda. Ágiskanirnar eru villtar. En Raducanu veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið, ætlar bara að njóta þess eins og hún sagði eftir sigurinn í New York.

 

Tengdar fréttir

Tennis

Setja sigur Raducanu á topp 10 lista yfir afrek Breta

Tennis

Sögulegur sigur Raducanu á opna bandaríska