Styrkja Afgana um 100 milljónir evra

epa09467563 Internally displaced Afghan families live in a temporary shelter at a park in Kabul, Afghanistan, 14 September 2021. The Taliban said on 14 September that the United Nations should help them in assisting nearly 3.5 million Afghans return to their homes after having been displaced inside the country due to violence. The statement comes after UN High Commissioner for Refugees Filippo Grandi met the foreign minister in the Taliban's interim government, Amir Khan Mutaqi. The international community has expressed its concern over the violation of the rights of women and girls, and has sought to highlight the lack of food security in a country which has been hit by a severe draught that could destroy crops.  EPA-EFE/STRINGER
 Mynd: EPA-EFE
Evrópusambandið ætlar að veita Afganistan hundrað milljóna evra fjárhagsaðstoð. Matvælaskortur fer vaxandi í landinu og óstjórn ríkir eftir valdatöku talibana í síðasta mánuði. Vegna ástandsins eru margir flúnir til nágrannalandanna.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, tilkynnti um neyðaraðstoðina í árlegri stefnuræðu sinni í Strassborg í dag. Hún sagði að sambandið yrði að leggja sitt af mörkum til að afstýra hungursneyð og öðrum hörmungum sem við blöstu í Afganistan. Framkvæmdastjórn ESB hafði áður tilkynnt að hún ætlaði að fjórfalda árlega fjárhagsaðstoð sína við Afgana, í fjögur hundruð milljónir evra. Fyrr í vikunni efndu Sameinuðu þjóðirnar til fjársöfnunar meðal þjóða heims í neyðaraðstoð vegna Afganistans. Fyrirheit bárust um 1,2 milljarða dollara. 

Frá því að talibanar náðu völdum um miðjan síðasta mánuð hafa þúsundir Afgana flúið til nágrannaríkjanna. Óttast er að flóttamannastraumurinn aukist til muna verði landsmönnum ekki komið til aðstoðar sem fyrst. Í dag var tilkynnt að hópur stúlkna úr U14, 16 og 18 landsliðum Afganistans í knattspyrnu hefðu komist yfir til Pakistans ásamt þjálfurum og ættmennum. Í frétt AFP fréttastofunnar segir að leitað hafi verið til forsætisráðherra Pakistans um aðstoð við flóttann.