Sjórinn í Seyðisfirði blóðrauður af þörungablóma

15.09.2021 - 09:00
Mikill þörungablómi er í Seyðisfirði og er sjórinn blóðrauður að sjá. Slíkur blómi drap nær allan eldisfisk í firðinum fyrir rúmum 20 árum og andstæðingar fiskeldis vara við að stofnað verði til eldis þar að nýju.

Þörungablóminn sést vel frá landi en umfangið sést enn betur úr lofti. Sigfinnur Mikaelsson stóð fyrir fiskeldi í Seyðisfirði í tólf ár til 1998. Nú berst hann gegn eldi í firðinum meðal annars í ljósi reynslunnar. „Það voru ýmis vandamál sem komu upp en eitt var alltaf á vorin á haustin. Það voru þörungavandamál. En 1997 kemur svona blómi eins og er hérna núna. Sjórinn varð bara kolmórauður og á einni nóttu drapst svo til allur fiskurinn og kvíarnar stóðu bara á staut þegar við komum út eftir um morguninn. Þessir þörungar sem við sjáum núna þetta eru svokallaðir eiturþörungar. Þeir þurrka upp súrefnið og leggjast á tálknin á fiskinum og drepa hann. Hann drepst og lendir bara í botninn. Ég er að rifja þetta upp fyrst og fremst út af því að fyrirhugað er hér 10 þúsund tonna eldi sem er í umsagnarferli hjá Skipulagsstofnun. Við sjáum sjóinn núna. Ég myndi ekki bjóða í það að vera með 10 þúsund tonna laxeldi í firðinum í dag. Ég get svo til garanterað að fiskurinn væri allur í botninum á nótunum núna, miðað við þá reynslu sem ég hef af þessu,“ segir Sigfinnur.

Eftir því sem næst verður komist hefur ekki verið rannsakað af hverju þörungar ofblómgast í firðinum.

„En að ætla að fara að setja niður 10 þúsund tonna eldi hérna þá held ég líka, bara með fullri virðingu fyrir þeim sem standa að þessu, að þeir ættu að upplýsa fjárfestirinn norska um stöðuna. Því að þetta á eftir að koma aftur. Þetta er ekki í fyrsta skiptið og ekki í annað skiptið. Þessi staða hefur komið upp margoft hérna og fiskurinn lifir ekki þegar þetta gerist. Og þetta er út allan fjörð og jafnvel að menn hafa orðið varir við þetta á Borgarfirði eystri,“ segir Sigfinnur.

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV