Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ríkisstjóri Kalíforníu heldur velli

epaselect epa09466715 (L-R) Jennifer Siebel Newsom, California Gov. Gavin Newsom and US President Joe Biden wave to supporters during an event for California Gov. Gavin Newsom in Long Beach, California, USA, 13 September 2021. With just one day ahead of the deadline to return ballots and vote in the California gubernatorial recall election, Biden's visit marks the Newsom campaign's final rally against the recall effort.  EPA-EFE/CAROLINE BREHMAN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Gavin Newsom, ríkisstjóri Kalíforníu í Bandaríkjunum stóð af sér kröfu Repúblikana um að honum yrði vikið úr embætti. Fyrr á árinu var efnt til undirskrifarsöfnunar þess efnis vegna óánægju með viðbrögð Newsom við kórónuveirufaraldrinum.

AFP-fréttaveitan hefur eftir NBC og CNN að Newson, sem er Demókrati, hafi stuðning tveggja þriðju hluta kjósenda þegar sextíu prósent atkvæða hafa verið talin.

Newsom segist sjálfur hafa búist við þessari niðurstöðu sem hann segir vera stuðning við vísindin, við bólusetningar og við það að sjá fyrir endann á kórónuveirufaraldrinum.

Þegar faraldurinn skall á skipaði hann fólki að halda sig heima við og lokaði skólum sem vakti reiði meðal margra fyrirtækjaeigenda og foreldra. 

Stjórnmálamenn víða um Bandaríkin fylgdust grannt með kosningunum, enda þykir niðurstaðan vera vísbending um hvernig ráðamönnum sem fóru að ráðum vísindamanna, fremur en reiði kjósenda, farnast í kosningum. 

Kjósendur höfðu val um hvort víkja ætti Newsom úr embætti eða ekki. Helmingur kjósenda hefði þurft að vilja víkja Newsom úr svo að til þess kæmi að velja milli 46 frambjóðenda til embættis ríkisstjóra.

Helsti keppinautur hans var Larry Elder, tæplega sjötug útvarpsstjarna og mikill stuðningsmaður Donalds Trump fyrrverandi forseta. Áður en kjörstaðir lokuðu fullyrti Elder að svindlað hefði verið í kosningunum og kallaði eftir því að niðurstöður þeirra yrðu gaumgæfilega rannsakaðar. 
 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV