Óvíst um kostnað við hraðpróf

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Frá og með deginum í dag geta allt að 1.500 komið saman ef þeir hafa tekið hraðpróf áður. Þau eru tekin á heilsugæslunni og að auki munu að minnsta kosti þrjú fyrirtæki bjóða upp á prófin á grundvelli reglugerðar. Heilbrigðisráðherra segir óvíst hversu mikið prófin muni kosta ríkið.

Þetta er ein af breytingum sem gengu í gildi á miðnætti og hún gildir til 6. október. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði í fréttum RÚV í gær að sóttvarnalæknir hefði gert lista yfir þau hraðpróf sem mætti nota. 

„Við gerum ráð fyrir því að þessi stóra skimunaraðstaða verði á vettvangi heilsugæslunnar við Suðurlandsbraut eða þar verði boðið upp á þessi hraðpróf,“ segir Svandís.

Auk þessa munu að minnsta kosti þrjú fyrirtæki taka prófin og munu þau tengjast þeim miðlægu kerfum sem notuð eru til að koma upplýsingum um COVID-19 á framfæri og  þannig munu niðurstöðurnar birtast í gegnum app eða síma og þannig er hægt að sýna þær við innganginn á stórum viðburðum.

Þetta er gert á grundvelli reglugerðar þar sem óvíst er hversu lengi slík próf verða tekin. „Við vitum ekki hversu lengi við viljum hafa þetta sem part af okkar umhverfi þannig að það verður væntanlega reglugerð en þá verður það  sambærileg niðurgreiðsla eins og gagnvart þessum prófum sem heilsugæslan sér um,“ segir Svandís.

Hefur verið áætlað hvað þessi hraðpróf munu kosta ríkið?  „Við vitum það ekki vegna þess að við vitum ekki hversu lengi við ætlum að nota þetta. Þannig að það verður bara að koma í ljós,“ segir Svandís.