Nói,Hlýja,Valli og félagar bæta mannlífið á Hrafnistu

Mynd: RÚV / RÚV

Nói,Hlýja,Valli og félagar bæta mannlífið á Hrafnistu

15.09.2021 - 19:21

Höfundar

Tíu rafkettir eru til húsa á hjúkrunarheimili Hrafnistu á Sléttuvegi. Deildarstjóri segir að þeir séu góð viðbót á heimilið, þeir gleðji íbúa og veiti mikilvæga nærveru, einkum þeim sem eru með heilabilanir.

Elsa Björg Árnadóttir deildarstjóri á Fossi á Hrafnistu á Sléttuvegi segir rafkettina hafa vakið mikla lukku hjá heimilisfólki.  „Sérstaklega hjá þeim sem eru með heilabilun,“ segir Elsa. „Þetta veitir þeim svo mikla nærveru. Margir eru að glíma við félagslega einangrun.“

Rafkisurnar mjálma, hreyfa sig og mala þegar þeim er strokið. Þær eru í nokkrum litum og hafa allar fengið nöfn, fimm stráka- og fimm stelpunöfn. Í þessum fríða flokki eru Njáll, Tómasína, Valli, Tómas, Káta, Vigdís, Hlýja, Snjólfur, Snælda og Nói.

Kisurnar fá gjarnan að kúra í rúmum íbúa og þegar fer að hægjast á þeim er einfaldlega skipt um rafhlöðu. Þær eru meðfærilegri en gengur og gerist með ketti; hvorki klóra né fara á flakk. „Og enginn er með ofnæmi fyrir þeim, sem er stór kostur,“ segir Elsa.

Hún segir að með því að handfjatla rafkisurnar og heyra þær mala fái margir nauðsynlega örvun. „Þetta er þessi nærvera sem vantar oft. Það er alveg ótrúlegt að sjá marga, sem eru kannski að tjá sig lítið og sitja í hjólastólnum, að fá þessar kisur í fangið. Þá bara lifnar yfir þeim. Það er svo fallegt að sjá það.“

Þannig að kisurnar gera gagn? „Algerlega. Við erum mjög lukkuleg með þessar tíu sem við eigum hér á Sléttuveginum.“