Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Mygla kostar Sorpu tugi milljóna króna

15.09.2021 - 12:55
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson
Mygla er komin upp í þaki og burðarvirki GAJU, gas- og jarðgerðarstöð Sorpu í Álfsnesi, og hefur jarðgerð verið stöðvuð af þeim sökum. Framkvæmdastjóri segir tjónið líklega hlaupa á tugum milljóna króna. Myglan hreiðraði um sig í límtré sem notað var í burðarvirkið.

Síðsumars urðu starfsmenn GAJU varir við myglumyndun á burðarbitum stöðvarinnar auk þess sem eldvarnarmálning var tekin af flagna af. Stöðin opnaði í fyrravor og nam kostnaður við bygginguna sex milljörðum króna.

Jón Viggó Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sorpu, segir að myglan hafi komið fólki í opna skjöldu. „Við vorum með færustu verkfræðistofur landsins í að fara yfir hönnunarforsendur og í að hanna þessa byggingu og það að það skuli hafa verið mygla í efra burðarvirki hússins varpar fram spurningum um efnisval og hönnunarforsendur og það er eitt af því sem við munum skoða í framhaldinu.“

Burðarbitarnir eru úr límtré og segir Jón Viggó að það sé hvergi notað í starfsemi sem þessari. Eðli málsins samkvæmt fylgi mygla jarðgerðarstarfsemi en mælingar sýni að gildi myglugróa séu minni en í sambærilegri starfsemi í Þýskalandi til að mynda. Böndin beinist því að efnisvalinu og mun Sorpa nú íhuga að leita réttar síns. „Já, klárlega. Ef að við sjáum að handvömm hafi verið gerð einhvers staðar þá munum við að sjálfsögðu skoða það og stjórn hefur falið mér það verkefni.“

Til að vernda öryggi starfsmanna og koma í veg fyrir frekari mygluskemmdir var ákveðið að stöðva jarðgerð. Gasgerð er hins vegar enn í fullum gangi. Jón Viggó segir tjónið mikið. „Tjónið að framleiðslustöðvuninni sjálfri er ekki neitt vegna þess að við höfum verið að framleiða moltu sem er hvort sem er ekki söluhæf eins og fram hefur komið og við vorum í raun bara að nota hana á urðunarstað og vorum ekki að reikna með neinum tekjum af henni hvort sem er. En tjónið sjálft er eitthvað sem við metum en ég býst við að það hlaupi á einhverjum tugum milljóna.“