Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Mygla í þaki og burðarvirki GAJU

15.09.2021 - 11:13
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson
Myglugró greindist í límtréseiningum í þaki og burðarvirki GAJU, gas- og jarðgerðarstöð SORPU, í ágúst og fullvinnsla á lífrænum úrgangi í moltu hefur verið stöðvuð tímabundið af þeim sökum. Líf Magneudóttir, stjórnarformaður SORPU, segir myglugróna vekja spurningar um það hvernig staðið var að hönnun og efnisvali fyrir húsnæði GAJU.

Framkvæmdir við gas- og jarðgerðarstöðina hófust í október 2018. Hún er engin smásmíði, tæpir þrettán þúsund fermetrar allt í allt. Upplýsingagjöf til stjórnar SORPU á byggingartíma var talið „verulega ábótavant og jafnvel villandi“ eins og fjallað var um í skýrslu Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar. 

Samkvæmt upplýsingum frá SORPU hafa óháðir sérfræðingar verið fengnir til að taka út umfang mygluvandans, leggja fram tillögur til úrbóta og tryggja öryggi starfsfólks. Stöðvun fullvinnslu á lífrænum úrgangi á ekki að hafa áhrif á getu GAJU til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá lífrænum úrgangi.  

„Öryggi starfsmanna skiptir okkur öllu máli og við vildum bæði tryggja það og hefjast tafarlaust handa við að stemma stigu við mygluvextinum. GAJA er einn hlekkur í að innleiða hringrásarhagkerfið á höfuðborgarsvæðinu og það er því mikilvægt að stöðin starfi hnökralaust og nái vinnslumarkmiði sínu. Þessi myglugró sem hafa greinst vekja upp spurningar um hvernig staðið var að hönnun og efnisvali fyrir húsnæði hennar. Við í stjórn SORPU höfum falið framkvæmdastjóra að leita skýringa á þessu sem allra fyrst,“ segir Líf Magneudóttir, formaður stjórnar SORPU.

Um það bil ár er liðið frá því að GAJA, gas- og jarðgerðarstöð SORPU, var ræst og tók til við að vinna lífrænan úrgang og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá meðhöndlun úrgangs á höfuðborgarsvæðinu. Eins og áður hefur verið fjallað um hefur greinst plast, gler og þungmálmar í moltu frá GAJU og sérfræðingar hafa bent á að nauðsynlegt sé að sérsafna lífrænum úrgangi, til þess að moltan uppfylli kröfur. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV