Lykillinn að hafa gott fólk og Tólfuna með sér í liði

Mynd: RÚV / RÚV

Lykillinn að hafa gott fólk og Tólfuna með sér í liði

15.09.2021 - 11:42
„Lars Lagerbäck lét mér líða rosalega vel, leyfði mér að hafa áhrif strax, og ég held að það sé lykillinn að öllu samstarfi,“ segir Heimir Hallgrímsson. Hann rifjar upp ferilinn og EM-ævintýrið 2016 í þættinum Með okkar augum í kvöld þar sem hann segir að stuðningurinn úr stúkunni hafi gert gæfumuninn.

Heimir Hallgrímsson knattspyrnuþjálfari er Eyjamaður í húð og hár. Hann hefur þjálfað heimalið sitt, ÍBV, og auðvitað A-landslið karla í knattspyrnu. Hann hélt til Katar 2018 eftir að hann sagði skilið við landsliðið þar sem hann þjálfaði drengina í Al-Arabi þar til nýlega.

Heimir kom íslenska landsliðinu eftirminnilega á tvær stórkeppnir, EM 2016 ásamt Lars Lagerbäck og svo HM 2018. Árangurinn á EM í Frakklandi 2016 er flestum Íslendingum sérstaklega ferskur í minni enda var hann lygilegur. Íslendingar töpuðu ekki leik í riðlakeppninni og unnu Englendinga í sextán liða úrslitum.

Heimir segir að samstarf þeirra Lars Lagerbäck hafi verið svona gjöfult því Lars sé svo þægilegur og gáfaður maður. „Hann veit hvernig á að vinna með fólki. Ég var náttúrulega svolítið óreyndur, að koma úr íslensku deildinni, og Lars lét mér líða rosalega vel,“ segir Heimir. Hann fann strax fyrir miklu trausti í samstarfinu. „Hann leyfði mér að hafa áhrif strax og ég held að það sé lykill að öllu samstarfi. Að menn fái svolítið frelsi.“

Á næsta stórmóti í Rússlandi 2018 var Lars hættur, en Heimir var áfram að þjálfa og bjó vel að samstarfinu. „Við héldum í meira og minna allt og flest af því sem við höfðum verið að gera áður. Ég hafði fjögurra ára reynslu af því að stjórna landsliðinu svo það var ekki flókið fyrir mig, fyrir utan að ég var áfram með gott fólk í kringum mig sem hjálpaði mér,“ segir hann. „Ég held að það sé lykillinn að hafa gott fólk í kringum sig, og Tólfuna að sjálfsögðu.“

Magnús Orri Arnarson ræðir við Heimi í Með okkar augum sem er á dagskrá í kvöld klukkan 20:35.