Listi Ábyrgar framtíðar í Reykjavík norður birtur

15.09.2021 - 10:39
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Jóhannes Loftsson skipar efsta sæti á lista Ábyrgrar framtíðar í Reykjavíkurkjördæmi Norður fyrir komandi kosningar. Listi framboðsins birtist í í dag. Landskjörstjórn hafnaði í gær framboði flokksins í Suðurkjördæmi þar sem ekki bárust nægilega mörg meðmæli í því kjördæmi.

Í auglýsingu frá landskjörstjórninni í morgun um framboð í alþingiskosningum er listi yfir frambjóðendur Ábyrgar framtíðar birtur í fyrsta sinn. Framboðið hefur listabókstafinn Y.

Jóhannes Loftsson verkfræðingur skipar efsta sæti listans í Reykjavík norður. Í öðru sæti er Helgi Örn Viggósson, forritari og í þriðja sæti Ari Tryggvason, eftirlaunaþegi. Í fjórða sæti er Sif Cortes, viðskiptafræðingur. 

Lista yfir 10 efstu frambjóðendur má sjá hér að neðan.

  1. Jóhannes Loftsson, verkfræðingur.
  2. Helgi Örn Viggósson, forritari.
  3. Ari Tryggvason, eftirlaunaþegi.
  4. Sif Cortes, viðskiptafræðingur.
  5. Stefán Andri Björnsson, hótelstarfsmaður.
  6. Gunnar G. Kjeld, frumkvöðull.
  7. Ágúst Örn Gústafsson, rafvirki.
  8. Auður Ingvarsdóttir, sagnfræðingur.
  9. Helga Birgisdóttir, NLP meðferðar- og markþjálfi.
  10. Dennis Helgi Karlsson, verkamaður.

Flokkurinn hafði skilað meðmælendalistum í tveimur kjördæmum, Reykjavík norður og Suðurkjördæmi. Yfirkjörstjórn Suðurkjördæmis hafnaði lista flokksins þar sem 31 undirskrift vantaði til að ná tilskildum fjölda.

Framboðið kærði þá ákvörðun til landskjörstjórnar. Í samtali við fréttastofu segir Kristín Edwald, formaður landskjörstjórnar, að ákvörðunin hafi verið staðfest á fundi landskjörstjórnar í gær.

 

Ábyrg framtíð er nýr flokkur sem hefur það helst á stefnuskránni að afnema allar samkomutakmarkanir, en flokkurinn leggur einnig áherslu á tjáningarfrelsi, geldur varhug við notkun bóluefna og vill aukið frelsi í heilbrigðismálum.

Flokkurinn hafði skilað inn meðmælendalista, en síðar hafði komið í ljós að sum þeirra voru ógild þar sem meðmælendur voru ýmist búsettir utan kjördæmis eða höfðu skráð sig í tvígang, bæði rafrænt og á pappír. 

Jóhannes Loftsson, formaður flokksins, er ósáttur við að flokknum hafi aðeins verið gefnar þrjár og hálf klukkustund til að safna viðbótarmeðmælum eftir að það varð ljóst. Í víðfeðmu kjördæmi dugi það ekki til. Þá segir hann að einhverjir hafi orðið varir við tæknilega örðugleika þegar þeir hugðust safna meðmælum rafrænt.