Landshlutaframboð ekki náð inn manni síðan 1987

15.09.2021 - 10:10
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Landskjörstjórn hefur staðfest framboðslista allra flokka sem bjóða fram til alþingiskosninga 25. september. Tíu flokkar eru í framboði í öllum kjördæmum. Þá er einn flokkur, Ábyrg framtíð, í framboði í einu kjördæmi, Reykjavíkurkjördæmi norður.

Framboð nýrra flokka, sem aðeins bjóða fram í nokkrum kjördæmum, hafa alla tíð verið algeng. Þau hafa hins ekki verið vænleg til árangurs síðustu ár.

Leita þarf 34 ár aftur í tímann til að finna flokk sem náði manni inn á þing án þess að bjóða fram í öllum kjördæmum.  Stefán Valgeirsson komst á þing í Norðurlandskjördæmi eystra árið 1987 með sérframboði sínu, Samtökum um félagshyggju og jafnrétti. Stefán hafði sagt skilið við Framsóknarflokkinn í aðdraganda kosninga. Framboð Stefáns fékk 12,1% fylgi í kjördæminu og einn af sjö þingmönnum kjördæmisins.

Síðan þá hafa margir reynt en enginn haft erindi sem erfiði. Það er enda sérlega erfitt fyrir flokk sem býður aðeins fram í nokkrum kjördæmum að koma manni á þing, sérstaklega ef aðeins er boðið fram í einu kjördæmi.

Erfitt að ná jöfnunarsæti

Jöfnunarsætum, sem minni flokkar treysta jafnan á, er aðeins úthlutað til flokka sem fá fimm prósent atkvæða á landsvísu.

Ef flokkur býður aðeins fram í einu kjördæmi þurfa atkvæðin þar að vera ansi mörg til að þau nái fimm prósentum af atkvæðum á landsvísu. Flokkur sem býður aðeins fram í Reykjavík norður þarf til dæmis um 27% fylgi í kjördæminu til að komast yfir fimm prósenta markið. Svo mikið fylgi myndi reyndar duga fyrir nokkrum kjördæmasætum líka.

Eins kjördæmis framboð geta því helst treyst á að ná kjördæmakjörnu sæti. Það fer eftir skiptingu atkvæða hversu mikið fylgi þarf til að ná slíku.

Í kjördæmi eins og Reykjavík norður þar sem kjördæmakjörnu sætin eru níu getur flokkur gengið að því vísu að hann fái kjördæmakjörinn þingmann ef hann nær 10% fylgi í kjördæminu, en vera má að hann þurfi minna. Í flestum tilfellum ættu mörkin að liggja við um 8%.

Eftir því sem þingmenn kjördæmis eru fleiri þarf lægra atkvæðahlutfall til að ná inn kjördæmakjörnum manni.

Í fjölmennasta kjördæminu, Suðvesturkjördæmi, eru kjördæmakjörin þingsæti 11 og þar getur flokkur verið öruggur með þingsæti nái hann rúmlega 8,3% fylgi. Með heppilegri atkvæðadreifingu þarf minna til.

Í fámennasta kjördæminu, Norðvesturkjördæmi, eru kjördæmakjörin þingsæti aðeins sjö og þar þarf 12,5% atkvæða til að vera öruggur með þingsæti. 

(Einhverjir kunna að hafa fundið mynstrið. Til að flokkur geti verið viss um kjördæmakjörið sæti í tilteknu kjördæmi verður fylgi hans í prósentum verður að vera minnst 100/(n+1) þar sem n er fjöldi kjördæmakjörinna sæta.)

Framboð sem ekki eru landsdekkandi

Frá því núgildandi kjördæmaskipan var tekin upp árið 2003 hafa tíu framboð reynt að ná manni inn á þing án þess að bjóða fram í öllum kjördæmum.

Árið 2003 bauð T-listi, Framboð óháðra í Suðurkjördæmi, fram í því kjördæmi einu. Flokkurinn fékk 844 atkvæði, 3,37%.

Í kosningunum 2013 voru ný framboð sem buðu fram í hluta kjördæma.

M-listi Landsbyggðaflokksins bauð fram í Norðvesturkjördæmi og fékk 326 atkvæði (1,88%).

H-listi Húmanistaflokksins bauð fram í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur og fékk 71 og 55 atkvæði (tæplega 0,2% í hvoru kjördæmi). Sömu sögu var að segja af Alþýðufylkingunni, sem fékk 64 og 54 atkvæði í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur.

Þá bauð Sturla Jónsson fram lista undir eigin nafni í Reykjavíkurkjördæmi suður og fékk 222 atkvæði (0,63%).

Í kosningunum 2016 buðu þrír listar fram í hluta kjördæma.

Íslenska þjóðfylkingin bauð fram í Norðvesturkjördæmi og fékk þar 90 atkvæði, og Suðurkjördæmi, 213 atkvæði.

H-listi Húmanistaflokksins bauð fram í Reykjavíkurkjördæmi suður og fékk 33 atkvæði.

R-listi Alþýðufylkingarinnar bauð fram í öllum kjördæmum nema Norðvestur og fékk flokkurinn á bilinu 74 til 211 atkvæði eftir kjördæmum.

Í síðustu alþingiskosningum árið 2017 bauð Alþýðufylkingin fram í fjórum kjördæmum, öllum nema Norðvestur- og Suðurkjördæmi. Flokkurinn fékk á bilinu 75 til 110 atkvæði eftir kjördæmum.

Þá bauð T-listi Dögunar fram í Suðurkjördæmi og fékk hann 101 atkvæði, 0,36%.