Kennsl borin á lík sex argentínskra hermanna

epa04690060 (FILE) A file photograph dated 21 March 2012 showing an overview of an area of Stanley in the Falkland Islands. Falkland Oil and Gas Limited, an oil and gas exploration company exploring areas around the  Falkland Islands for gas and oil,
Bærinn Stanley, höfuðstaður Falklandseyja. Þar búa um 2.500 manns. Mynd: EPA - EFE FILE
Borin hafa verið kennsl á líkamsleifar sex argentínskra hermanna sem féllu í Falklandseyjastríðinu árið 1982. Fjöldi hermanna var lagður til hinstu hvílu í ómerktum gröfum að stríðinu loknu.

Stríðið stóð í um tíu vikna skeið milli Argentínu og Bretlands og snerist um yfirráð yfir eyjunum auk Suður-Georgíu og Suður-Sandvíkureyjum. Falklandseyjar eru um 500 kílómetra suðaustanundan strönd Argentínu, búa við sjálfstjórn en hafa verið undir breskum yfirráðum frá árinu 1833.

Lík hermannana lágu í fjöldagröf nærri bænum Darwin á suðurhluta eyjanna að því er fram kemur í tilkynningu frá Alþjóðanefnd Rauða krossins í dag. Laurent Corbaz sem fór fyrir hópnum sem auðkenndi hina látnu segist djúpt snortinn yfir að geta með þessu bundið endi á óvissu fjölskyldna þeirra. 

Auk Rauða krossins átti teymi argentínskra réttarmeinafræðinga þátt í því að þekkja deili á hermönnunum. Líkin hafa nú verið færð aðstandendum. 

Alls féllu 649 argentínskir hermenn, 255 breskir og þrír óbreyttir borgarar í átökunum sem hófust 2. apríl 1982 og lauk 14. júní sama ár. Að stríðinu loknu voru 237 argentískir hermenn lagðir til hinstu hvílu í 230 gröfum í kirkjugarði í Darwin.

Fyrir fjórum árum voru líkamsleifar 122 hermanna sem lágu í ómerktum gröfum grafnar upp og þá tókst með aðstoð DNA-greiningar að bera kennsl á 115 þeirra. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir