Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Helmingi færri Íslendingar á hótelum en í fyrra

15.09.2021 - 09:44
Mynd með færslu
 Mynd: Hafnarsamlag Norðurlands - Facebook
Tekjur af erlendum ferðamönnum á öðrum ársfjórðungi þessa árs námu 30 milljörðum króna, en þær voru 7,8 milljarðar á sama tímabili árið á undan. Á tólf mánaða tímabili frá júlí 2020 til júní 2021 voru tekjur af erlendum ferðamönnum 79,1 milljarður króna, en 333 milljarðar á tólf mánaða tímabili ári fyrr.

Ferðamönnum hefur líka fjölgað hratt; í ágúst fóru 172.415 farþegar frá Keflavíkurflugvelli, en aðeins 71.729 í ágúst í fyrra. Farþegar með erlent ríkisfang sem flugu frá Keflavíkurflugvelli voru 151.847 nú í ágúst, en 63.762 í ágúst í fyrra.

Gistinóttum ferðamanna á hótelum í ágúst á þessu ári fjölgaði um 134 prósent frá því í ágúst á síðasta ári og voru um 413 þúsund. Gistinætur Íslendinga voru 65.500, eða helmingi færri en í ágúst 2020. Gistinætur erlendra gesta voru 347.800, næstum sjöfalt fleiri en í ágúst í fyrra.