Heilbrigðismálin langstærst í huga kjósenda 

Mynd með færslu
 Mynd: Landspítalinn
Heilbrigðismál bera höfuð og herðar yfir önnur málefni þegar spurt er um mikilvægustu málin fyrir kosningarnar 25. september. 67,8% svarenda nefna heilbrigðismálin sem stærsta kosningamálið.

Þetta segja niðurstöður könnunar sem Maskína gerði dagana 31. ágúst til 6. september. Næst stærst með 43,1% eru umhverfis- og loftslagsmál, og þriðja stærsta kosningamálið eru efnahags- og skattamál, sem 33,8% nefndu. 

Alls náðu fjórir aðrir málaflokkar 10% eða meira í svörun í þessari könnun. Velferðarmál eru ofarlega í huga 28,6% svarenda, menntamál nefndu 12,5% á meðan 12,2% nefndu auðlindir og kvótakerfið sem stórt kosningamál. Loks nefndu 11,1% samgöngu- og byggðamál. 

Eftir 18 mánuði af daglegu lífi með kórónuveirunni þarf ekki að koma á óvart að heilbrigðismál brenni á landsmönnum í aðdraganda kosninga. Vinnumarkaðurinn virðist aftur á móti vera að rétta úr kútnum eftir skakkaföllin meðfram covid-smitum síðustu misseri því mun minni áhyggjur virðast vera af atvinnumálum; einungis 8,7% töldu þau með stærstu kosningamálunum að þessu sinni. 

Ekki virðast „Innflytjendur/hælisleitendur/flóttamenn” vera meðal stórvægilegustu úrlausnarefna í huga landsmanna að svo komnu máli því einungis 3,5% nefndu þann málaflokk. Þá virðast áhyggjur af spillingu vera hverfandi því 2,9% telja að „Uppræting spillingar” sé með stærstu kosningamálum. 

Þegar rýnt er í einstaka hópa svarenda kemur í ljós að körlum eru efnahags- og skattamál hugleiknari en konum, og sömu sögu er að segja af auðlindum og kvótakerfinu. Konur nefna aftur á móti heilbrigðismál, umhverfis- og loftslagsmál, velferðarmál og menntamál sem stóru kosningamálin, frekar en karlar. 

Þá vekur athygli að eftir því sem menntunarstig eykst hjá svarendum eykst um leið vægi umhverfis- og loftslagsmála sem stórt kosningamál. Því er hins vegar öfugt farið með velferðarmálin; með aukinni menntun dregur jafnt og þétt úr mikilvægi þeirra í huga kjósenda fyrir komandi kosningar. 

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e.panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Svarendur eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Könnunin fór fram dagana 31. ágúst til 6. september 2021 og voru svarendur 2078 talsins.