Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Grunnskólanum á Reyðarfirði lokað vegna COVID-19 smits

15.09.2021 - 13:42
Mynd með færslu
 Mynd: Reyðarfjörður - RÚV/Rúnar Snær Reynisson
Grunnskólanum á Reyðarfirði hefur verið lokað í dag vegna gruns um COVID-19 smits í skólanum.

Aðgerðastjórn Lögreglunnar á Austurlandi sendi frá sér tilkynningu þessa efnis nú laust eftir hádegið. Þar segir að skólanum sé lokað til að gæta fyllsta öryggis og varúðar á meðan unnið er að kortlagningu mögulegs smits. Skima á alla nemendur í 1. til 3. bekk og allt starfsfólk á heilsugæslunni á Reyðarfirði. 

„Aðrir nemendur skólans, forráðamenn eða ættingjar barna í skólanum sem hafa einkenni sem geta bent til Covid-19 eru einnig hvattir til þess að mæta í sýnatöku í dag. Hægt er að bóka sér sýnatöku á heilsuvera.is og mikilvægt er að mæta með strikamerki tilbúið þegar mætt er í sýnatökuna kl. 12. Þeir sem þurfa aðstoð er bent á að hafa samband við heilsugæsluna í síma 470-1420. Niðurstaða skimunar ætti að liggja fyrir í kvöld og þá verður haft samráð við smitrakningateymið varðandi næstu skref. Aðgerðastjórn fylgist með gangi mála og mun senda út aðra fréttatilkynningu þegar niðurstöður sýnatöku liggja fyrir. Nú, sem aldrei fyrr, er mikilvægt að þeir sem sýna einkenni sem geta bent til Covid-19 (hiti, hósti, kvef, hálssærindi og fleira) haldi sig heima og bóki sér tíma í einkennasýnatöku. Reyðfirðingar, sem og aðrir, eru hvattir til að sinna vel persónubundnum sóttvörnum og notfæra sér það sem við höfum lært varðandi smitvarnir.“ segir í tilkynningunni.

Samkvæmt tölum á covid.is eru átta í einangrun á Austurlandi með COVID-19 og 12 í sóttkví. Aðeins eru færri í einangrun vegna veirunnar á Vesturlandi og Vestfjörðum.