Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Gekk upp á gígbarminn í Geldingadölum

15.09.2021 - 16:21
Mynd: Matthias Vogt / Volcano Heli
Göngumaður sást ganga upp á gígbarminn á eldgosinu í Geldingadölum. Ekki þarf að fjölyrða um að það er stórhættulegt. Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti tvo ferðalanga inn á gossvæðið í dag.

Á vefmyndavél RÚV sást til göngumanns sem gengur upp á gígbarminn og lítur ofan í gíginn. Myndskeið úr vefmyndavélinni má sjá hér að ofan. Myndirnar eru frá því klukkan 10 í morgun. Slíkt er stórhættulegt og hefur margoft verið varað við að fara út á hraunið yfir höfuð. Lokað var fyrir umferð að gosstöðvunum vegna hraunflæðis fyrir hádegi af öryggisástæðum. 

Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti tvo ferðalanga á gosstöðvarnar í dag. Ekki er vitað hvort að sá sem sést á myndskeiðinu sé þar á meðal. Glóandi hraun fór að flæða undan storknuðu hrauni í morgun. Björn Oddsson, jarðeðlisfræðingur hjá almannavörnum, sagði í hádegisfréttum að hraunið hafi farið að renna hratt og náð á tuttugu mínútum að varnargörðum við Nátthagakrika, og fór síðan að flæða ofan í Nátthaga.

„Síðustu daga hafa verið merki um að hraun hafi verið að safnast saman í Geldingadölum þar sem gosið hófst. Svo virðist sem sú tjörn hafi safnað nógu miklu magni til þess að spretta fram núna,“ segir Björn. Það er þó ekki hægt að fullyrða að hraunframleiðsla hafi aukist.

„Það er of snemmt að segja til um það. En það eru engir kvikustrókar eða neitt þar sem uppsprettan er sem bendir til þess að þetta sé ný sprunga að opnast að slíkt. Þetta sýnir okkur bara hversu síbreytilegt þetta umhverfi er hérna. Í gær rann til norðurs, þá var allt með kyrrum kjörum hér, en svo gerist þetta á skömmum tíma. Það hefur ekkert hægt á uppsprettunni sjálfri svo við verðum bara að sjá hvað dagurinn ber í skauti sér,“ segir Björn Oddsson.

Ekki tóku allir jafn vel í tilmæli björgunarsveita þegar fólki var vísað frá gosstöðvunum á Reykjanesskaga fyrr í dag. Lögregla hafði afskipti af einstaklingum sem sinntu ekki tilmælum björgunarsveita.

Bogi Adolfsson, formaður björgunarsveitarinnar Þorbjörns í Grindavík, telur að á bilinu 200-300 hafi verið á svæðinu sem þurfti að rýma vegna aukins hraunflæðis. 

„90% af þeim er náttúrulega bara kurteist og flott fólk og hinkrar bara og bíður eftir tilmælum en svo eru þessir þarna inni á milli sem eru bara erfiðir og þá tekur lögreglan við.”

En var fólk í hættu? 

„Ja sko undir venjulegum kringumstæðum hefði kannski enginn verið í hættu en gallinn við þetta er að fólk er fljótt að koma sér í það. Það þarf eiginlega svona barnaeftirlit, ef maður á að orða það þannig.”  

Að sögn Boga gekk björgunarsveitum að mestu leyti vel að athafna sig á vettvangi og fljótlega var hægt að opna á ný, fyrir utan A-gönguleiðina svokölluðu. Bogi segir að gasmengun hafi verið það mikil í kringum hana að ekki taldist óhætt að hafa hana opna.