Engin nálægðartakmörk á framhaldsskólaböllum

Mynd með færslu
 Mynd: Lára Ómarsdóttir - Samfés
Almennar fjöldatakmarkanir miðast nú við 500 manns og ef hraðpróf eru notuð mega allt að 1.500 koma saman, en ef viðburðirnir eru standandi þarf annað hvort að hafa grímu eða einn metra á milli fólks. Reglur um nálægðartakmörk gilda ekki á skólaskemmtunum: þar mega 1.500 koma saman án þess að halda fjarlægð eða vera með grímu, ef allir vísa hraðprófi.

Þetta er á meðal þeirra breytinga á samkomutakmörkunum sem tóku gildi á miðnætti. 

Nálægðartakmörk verða almennt áfram einn metri, nema á sitjandi viðburðum og á skólaskemmtunum, og grímuskylda helst að mestu óbreytt; hafa þarf grímu innandyra þegar ekki er unnt að viðhafa eins metra fjarlægð.

Veitingastaðir, þar sem heimilaðar eru áfengisveitingar, geta haft opið klukkustund lengur, til kl. 00.00 og tæma þarf staðina fyrir kl. 01.00.

Rétt að fara hægt í tilslakanir á landamærum

Í minnisblaði sóttvarnalæknis segir að í ljósi þeirrar reynslu sem fékkst í lok júní 2021 af afléttingum allrar takmarkana innanlands og breytinga á skimunum á landamærum, telji hann rétt að fara hægt í tilslakanir á næstunni, sérstaklega á landamærum. „Þau alvarlegu veikindi sem hlutust af þessum tilslökunum gengu nærri þolmörkum Landspítala eins og kunnugt er.“

Þá segir hann að ef vel takist til með takmörkunum á landamærum, að lágmarka flutning veirunnar hingað til lands frá útlöndum, þá telji hann allar forsendur vera fyrir hendi til að slaka frekar á takmörkunum innanlands á næstu vikum og mánuðum.