Mynd: EPA

Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.
Einn af hverjum fimm kýs utan kjörfundar í Kanada
15.09.2021 - 00:27
Næstum einn af hverjum fimm Kanadamönnum greiddu atkvæði utan kjörstaðar um liðna helgi. Einnig er talið að óvenjumargir nýti sér að greiða póstatkvæði sökum kórónuveirufaraldursins.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá yfirkjörstjórn Kanada, Elections Canada. Um það bil 5,8 milljónir Kanadamanna greiddu atkvæði um helgina en Justin Trudeau forsætisráðherra boðaði óvænt til þingkosninga fyrr í sumar sem fram fara 20. september næstkomandi.
Ástæðan er sú að ríkisstjórn hans er minnihlutastjórn og hefur gengið afar erfiðlega að koma málum sínum í gegn um þingið. Kannanir sýna að Frjálslyndi flokkur forsætisráðherrans mælist nú með svipað fylgi og Íhaldsflokkurinn.
Kosningabarátta Trudeaus hefur einkennst af mótmælum gegn stefnu hans, einkum hvað varðar skyldubólusetningar gegn COVID-19. Tveir mótmælendur hafa verið ákærðir fyrir að hafa í hótunum við og grýta forsætisráðherrann.