Breiðfirskur súðbyrðingur standsettur og fer á sjó á ný

Breiðfirskur súðbyrðingur standsettur og fer á sjó á ný

15.09.2021 - 10:02

Höfundar

Bátasmiður sem vinnur nú að endurnýjun 86 ára gamals súðbyrðings leggur mesta áherslu á að breyta sem allra minnstu, þótt ekki sé notast við aldagömul verkfæri við aldagamalt handverkið.

Á báta- og hlunnindasýningunni á Reykhólum er nú unnið að endurnýjun bátsins Sindra. Hann var smíðaður árið 1935 í Hvallátrum á Breiðafirði og er súðbyrðingur.

„Súðbyrðingur, þá koma borðin hvert utan yfir annað. Neðri brúnin á efsta borðinu kemur aðeins utan yfir brúnina á næsta fyrir neðan og koll af kolli,“ segir Hafliði Már Aðalsteinsson bátasmíðameistari.  

Ný verkfæri en gamalt handverk

Bátasmíð sem þessi er kunnátta sem sífellt færri búa yfir og mikilvægt að gera sögulegu handverkinu góð skil. 

„Ég hugsa að þetta sé eins og hjá öllum sem eru að fást við þetta að þú reynir að breyta sem allra minnstu. Við notum að sjálfsögðu nýtísku verkfæri. Við erum ekki með öxina og hefilinn frá afa, en við reynum að breyta sem allra minnstu.“

Hafliði segir að ekki sé alltaf ljóst hve mikið þarf að gera fyrir bátana, og stundum þurfi að skipta um allan við í bátnum.

„Smátt og smátt fúnar þetta bara og verður feyskt, viðurinn. Þá ef það á að eiga við hann þá brotnar hann bara, klofnar ekki, og þá er þetta ónýtt.“

Vel kunnur breiðfirskur bátur

Sindri var vel þekktur og mikið notaður á Breiðafirði fram á sjötta áratug síðustu aldar.

„Vegurinn er nú að koma hérna á bæina og nesin hérna fyrir vestan um það bil. Þangað til er hann mikið á ferðinni í alls konar flutningum og út í eyjar. Hann var notaður talsvert. Hann á sögu hérna og bara fínt að laga hann og hann fer á flot aftur næsta sumar,“ segir Hafliði.

Þess má geta að ítarlegra viðtal við Hafliða Má var flutt í útvarpsþættinum Sögum af landi á Rás 1. Hér má hlusta á þáttinn. 

Tengdar fréttir

Strandabyggð

Reykhólahreppur lætur greina sameiningarkosti

Reykhólahreppur

Reykhólabúðin opnuð á Reykhólum