Vöfflur á Bíldudal hápunktur 1000 km Vestfjarðaferðar

14.09.2021 - 13:05
Mynd: Þráinn Kolbeinsson / Aðsend
Sundspretturinn er kærkominn fyrir ameríska hjólahópinn sem hefur nú lagt að baki um þúsund kílómetra leið. Á sex dögum þræddi hópurinn Vestfjarðaleiðina sem spannar alla helstu staði Vestfjarðakjálkans og Dala. Hjólaleiðin er löng og ströng, með háum heiðum og djúpum fjörðum.

Chris Burkard er einn hjólreiðamannanna fræknu. 

„Útsýnið, firðirnir, landslagið tekur svo miklum breytingum að dag hvern fær maður að sjá eitthvað nýtt og öðruvísi. Miklar heiðar en ekki of langar, brattar brekkur og meira af heitum lindum en hægt er að óska sér.“ 

 

Burkard hefur ferðast margsinnis um Ísland og tekur nú þátt í að hanna leiðina um Vestfirði fyrir annað hjólafólk í samstarfi við Vestfjarðastofu.

Þegar hann lítur yfir farinn, eða hjólaðan, veg, segir hann stoppið á Bíldudal í uppáhaldi. 

„Í gærmorgun vorum við á Patreksfirði og Tálknafirði og fórum yfir tvær miklar heiðar; það var 1800-1500 metra hækkun fyrir klukkan níu. Og við þræluðum sveitt og köld í þokunni. Við renndum svo niður á Bíldudal og fengum þar rómaðar íslenskar vöfflur, rjóma og rabarbarasultu. Það var sérstök stund.“

Þá sé innlitið í vestfirskt samfélag og sögu dýrmætt. 

„Maður lærir að meta að verðleikum, þegar maður fer um á hjólinu, samfélögin sem hér eru. Áður en bílar komu til sögunnar og áður en jarðgöng voru grafin og vegir lagðir, ef fólk ætlaði að heimsækja annað þorp var yfir heiðar að fara, á skíðum eða ríðandi. Ísland hefur ætíð verið samofið upplifun mannsins og það er ástæða til að vegsama það.“