Vill skapa aukna samstöðu um miðhálendisþjóðgarð

14.09.2021 - 20:05
Mynd: RÚV / RÚV
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, segir flokkinn ætla að reyna að skapa aukna samstöðu um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu á næsta kjörtímabili. Frumvarp þess efnis náði ekki fram að ganga í vor.

Katrín segir að ríkisstjórnin hafi þurft að takast á við heimsfaraldur á kjörtímabilinu og því sé ekki hægt að horfa til baka eins og á venjulegu kjörtímabili og meta hvaða málum hefði verið hægt að ná í gegn og hverjum ekki. Hún segir þó ljóst að kjósendur hafi mjög skýrt val um að standa vörð um þá uppbyggingu sem orðið hefur í almannaþjónustu á undanförnum árum.

„Við verðum bara að segja það að aðstæður á þessu kjörtímabili voru þannig að heimsfaraldur tók yfir öll okkar verkefni,“ segir Katrín.

En það eru ýmis mál, hálendisþjóðgarðurinn, stjórnarskrárbreytingarnar og ýmislegt sem hefur ekki farið í gegn. Hvað finnst þér sárast af þessu?

„Það voru ýmis mál sem fóru ekki í gegn og hefði kannski verið tækifæri til að ná í gegn í eðlilegu árferði en ég er búin að vera í pólitík og sitja á þingi síðan 2007 og ég veit að verkefnunum er aldrei lokið. Við erum ekki búin að hverfa til að mynda frá hugmyndinni um þjóðgarð á miðhálendi Íslands. Við ætlum að halda áfram að vinna þeirri hugmynd brautargengi og reyna að skapa aukna samstöðu um þá hugmynd líka,“ segir Katrín.

Þetta er meðal þess sem kom í viðtali við Katrínu í Forystusætinu á RÚV í kvöld, en viðtalið má í heild sjá í spilaranum hér að ofan.

Á næstu dögum og vikum verður rætt við formenn þeirra stjórnmálaflokka sem eru í framboði fyrir alþingiskosningarnar 25. september. Röðun þeirra var dregin af handahófi. Ítarlega umfjöllun um kosningarnar má finna á kosningavef RÚV, ruv.is/x21.

Frettir's picture
Fréttastofa RÚV