Þungt haldin á sjúkrahúsi eftir slys á Tenerife

14.09.2021 - 15:22
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Íslensk kona, sem lenti í alvarlegu slysi á Tenerife á sunnudag, liggur þungt haldin á sjúkrahúsi á eynni. Vinkona hennar, sem einnig slasaðist illa, er ekki eins illa haldin, samkvæmt heimildum fréttastofu. 

Fimm íslenskar konur slösuðust þegar króna pálmatrés brotnaði af og féll niður á þær, þar sem þær sátu að snæðingi í Las Verónicas, við Playa de las Americas ströndina, sem er mörgum Íslendingum vel kunnug.

Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, staðfestir í samtali við fréttastofu að leitað hafi verið til kjörræðismanns á Kanaríeyjum vegna slyssins. Vísir greindi fyrst frá. 

Tvær kvennanna slösuðust alvarlega. Samkvæmt spænska vefmiðlinum Diario de Avisos, hlaut ein konan, sem sögð er vera 47 ára, marga alvarlega áverka og önnur 47 ára kona alvarlega áverka á andliti og fótum, og sú þriðja fjölmarga minni áverka. Hinar tvær konurnar eru minna slasaðar. Samkvæmt heimildum fréttastofu voru þær á ferðalagi á eigin vegum.

Trjákrónan getur verið mörg hundruð kíló

Daginn og nóttina fyrir slysið hafði verið mjög hvasst en á sunnudaginn var skaplegt veður. Pálmatré sem þessi geta verið á bilinu sjö til tólf metrar á hæð, og króna þeirra getur verið mörg hundruð kíló að þyngd. Ekki er vitað hvað varð til þess að króna trésins brotnaði.

Vísir hefur eftir eiginmanni einnar kvennanna að þrír Íslendingar sem áttu leið hjá hafi náð að lyfta trjákrónunni af konunum. Þær voru svo fluttar á sjúkrahús til aðhlynningar.

Á meðan konurnar lágu slasaðar bar að garði ófyrirleitna þjófa sem stálu símum frá þremur þeirra. Tvær þeirra snúa til Íslands í dag og ein á morgun. 

 

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV