„Það bara vantar meira fjármagn og mannskap“

Mynd:  / 
Héraðsdýralæknir á Norðurlandi vestra tekur undir gagnrýni bónda sem neyðist nú til að farga allri sinni hjörð eftir riðusmit. Hann segir að með meiri mannskap mætti hugsanlega koma í veg fyrir slíkt.

„Gripið til aðgerða“

Í byrjun síðustu viku kviknaði grunur um riðuveiki í kind frá bænum Syðra-Skörðugili í Skagafirði. Jón Kolbeinn Jónsson, héraðsdýralæknir á Norðurlandi vestra segir grunur um smit hafa komið við heimasmölun. „Í vikunni þá fengum við tilkynningu um kind sem var með riðueinkenni sem að fannst við heimalandasmölun og það voru tekin sýni úr henni og send til Keldna til greiningar og svo fengum við lokaniðurstöðu þarna á föstudeginum, á eftirmiðdegi og þá var bara gripið til aðgerða,“ segir Jón Kolbeinn.

Sjá einnig: „Alltaf með það á herðunum að þetta myndi koma"

Tekur undir með bóndanum á Syðra-Skörðugili

Um fimmtán hundruð fjár eru á bænum, fullorðið fé og lömb. Hjörð sem bíður nú þess að vera lógað. Ræktunaraðgerðir til að vernda sauðfé fyrir riðu hafa ekki skilað árangri hingað til. Á meðan svo er, er niðurskurður það eina sem er í boði fyrir bændur. Elvar Einarsson, bóndi á á Syðra-Skörðugili gagnrýndi stefnu yfirvalda í kvöldfréttum í gær. 

Hann segist ósáttur við þá nálgun sem er í þessu, þ.e.a.s. að þurfa að skera allt niður og kallar eftir meira fyrirbyggjandi aðgerðum, er það eitthvað sem þú tekur undir?

„Já ég tek bara heilshugar undir það þarf að leggja meiri vinnu í að vinna úr þessum faraldsfræðilegu gögnum.“

Hver vegna er þá ekki farið þá leið? 

„Það bara vantar meira fjármagn og mannskap, eins og Norðvesturumdæmi, þá hefur umdæmið stækkað en mannskapurinn hefur ekki fylgt með því.“

Þannig að með frekari starfsfólki og auknu fjármagni væri hugsanlega hægt að koma í veg fyrir svona dæmi?

„Já“