Stefna að því að vekja loðfíla upp frá dauðum

14.09.2021 - 03:43
epa04504598 A giant mammoth skeleton is on display as part of the 'Giants of the Ice Age' exhibition in Amsterdam, The Netherlands, 26 November 2014. The exhibit features the original skeleton of a woolly mammoth, shown for the first time in
Beinagrind af loðfíl. Mynd: EPA - ANP
Líftæknifyrirtækið Colossal, í samstarfi við erfðavísindamann úr Harvard-háskóla, ætlar að freista þess að endurvekja loðfíla og koma þeim fyrir í freðmýri Norðurslóða. Fyrirtækið segir tækni sína geta nýst til að styrkja lífkerfi sem ýmist eru í bráðri hættu eða ónýt. Jafnvel telja vísindamenn þess að tæknin nýtist til þess að hefta áhrif loftslagsbreytinga. 

AFP fréttastofan hefur eftir yfirlýsingu Ben Lamm, framkvæmdastjóra og eins stofnenda Colossal, að fyrirtækið geti einnig aðstoðað við að viðhalda stofni dýra í bráðri útrýmingarhættu og reisa við stofna dýra sem mannkynið hefur útrýmt.

Loðfílar örkuðu um Norðurslóðir þar til fyrir um 4.000 árum síðan. Menn veiddu dýrin sér til matar og notuðu bein þeirra sem verkfæri. Síðustu áratugi hafa vísindamenn fundið alls kyns fílabein, tennur og hár, og notað þau til þess að reyna að finna út erfðamengi loðfíla. 

Hugmynd Colossal er að splæsa saman erfðamengi loðfíla við erfðamengi asíufíla, og búa þannig til blendinga. Erfðamengi dýranna er eins að 99,6 prósenta leyti að sögn Colossal. Verkefnið hefur þegar hlotið fjármögnun upp á 15 milljónir bandaríkjadala.

Fyrirtækið segir loðfíla hafa verið mikilvægan lið í því að viðhalda heilbrigðu umhverfi á Norðurslóðum. Með því að endurvekja dýrin væri mögulegt að glæða graslendi svæðisins lífi aftur.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV