Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Smit á Hofsósi gæti sett göngur í uppnám

14.09.2021 - 16:17
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Nokkur Covid smit komu upp um helgina í Grunnskólanum á Hofsósi. Fjölmörg heimili í byggðarlaginu eru því í sóttkví og ef fleiri smit greinast hefði það mikil áhrif á fyrirhugaðar göngur og réttir um helgina á Tröllaskaga.

 

„Höldum niðri í okkur andanum“

Nokkrir nemendur á Hofsósi eru nú einangrun og öll börnin í skólanum eru í sóttkví. Sýnataka verður framkvæmd á föstudaginn til að útiloka fleiri smit og segir Jóhannes H. Ríkharðsson, bóndi á Brúnastöðum, að bændur í sveitinni bíði með öndina í hálsinum eftir niðurstöðum þeirrar skimunar.

„Þetta er kannski ekki það sem við áttum von á þegar þessi nýjasta bylgja er að detta niður og við höfum sloppið alveg í gegnum tíðina hér þá var þetta eiginlega versti tíminn sem við gátum fengið akkúrat núna. Við höldum niðri í okkur andanum og vonum að þetta sé sloppið hjá okkur,“ segir Jóhannes.

Smalamennska sem krefst mikils mannafla

Svæðið sem um ræðir er á austanverðum Tröllaskaga þar sem hann er nyrstur. Jóhannes segir að svæðið sem smala þarf á sé víðfeðmt og erfitt og þörf sé á fjölmenni til smalamennskunnar. 

Eins og núna er gróður rosalega sterkur til fjalla og bara hásumar uppi í fjöllunum og allt fé mjög hátt upp og okkur veitir ekkert af öllum þeim mannskap sem við getum fengið. Og ef allt fer í lok og læs þá veit ég ekki hvað við getum gert.