Segir ástandið erfitt víða í veitingageiranum

14.09.2021 - 22:10
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Bragi Skaptason, veitingamaður, segir það vera smáskammtalækningar að lengja opnunartíma veitinga- og skemmtistaða einungis um klukkustund. Hann segir að ástandið sé erfitt víða í veitingageiranum og að ganga þurfi lengra í afléttingum.

Almennar fjöldatakmarkanir hækka úr 200 í 500 manns á miðnætti. Á viðburðum þar sem krafist er hraðprófs mega 1.500 manns koma saman. Þá lengist opnunartími skemmtistaða um klukkustund. Þeir mega nú taka við gestum til miðnættis, og síðustu gestir þurfa að vera farnir klukkan 01.

„Klukkutími er klukkutími en það veldur mér smá vonbrigðum að það skuli ekki vera örlítið meiri lenging,“ segir Bragi. „Ég finn það á kollegum mínum að hér í miðbænum er ástandið býsna erfitt og víða um land í veitingageiranum.“

„Við fögnum öllu sem okkur er rétt en mér finnst þetta vera smáskammtalækningar,“ segir Bragi. „Nú er í raun og veru bara verið að leyfa okkur að vera með opið til tólf þrátt fyrir að þetta sé til eitt. Við megum ekkert selja eftir tólf,“ segir hann. „Ég hefði viljað sjá örlítið lengra gengið og að þetta væri tekið í stærri skrefum.“

En nú hafa stórar bylgjur í kórónuveirufaraldrinum verið raknar til veitingastaða. Hvernig væri hægt að koma í veg fyrir það í framtíðinni?
„Það var einn viðkomustaður bylgnanna. Þær komu hérna fyrst í gegnum flugvél þannig að það er spurning hvert er raunverulega hægt að rekja þessar bylgjur,“ segir Bragi.