Óvissustigi aflétt vegna Skaftárhlaups

14.09.2021 - 14:35
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist
Ríkislögreglustjóri hefur í samráði við lögreglustjórann á Suðurlandi ákveðið að aflétta óvissustigi almannavarna vegna hlaups í Skaftá. Tæplega vika er síðan að hættustigi var aflétt og vegir á svæðinu voru opnaðir á ný.

Hlaup hófst úr Eystri-Skaftárkatlinum laugardagskvöldið 4. september en því var spáð að það yrði svipað að stærð og hlaupið 2018. Almannavarnir lýstu stuttu síðar yfir hættustigi vegna hlaupsins. Útbreiðsla hlaupsins nálægt jökli reyndist síðan talsvert minni en í hlaupinu 2018.

Rennsli í Skaftá og vatnshæð heldur áfram að lækka jafnt og þétt. Rennsli við Sveinstind mælist nú um 190 rúmmetrar á sekúndu en var rúmlega 1.400 rúmmetrar þegar það mældist mest.